25.07.1914
Efri deild: 18. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í B-deild Alþingistíðinda. (1490)

10. mál, afnám fátækratíundar

Guðmundur Ólafsson ; Þetta frv. hefir komist á nokkuð kynlegan hátt gegn um hv. Nd., þar sem 4 af 5 nefndarmönnum, sem þar voru settir til að íhuga málið, lögðu það til, að frv. væri vísað frá að þessu sinni, og í því skyni samþykt rökstudd dagskrá um það, að fresta málinu, með því að búast mætti við, að skattamál landsins yrðu tekin til meðferðar á næsta þingi, og þá muni jafnframt gjörð breyting á sveitagjöldum. Það var aðeins einn nefndarmanna, flutningsmaðurinn sjálfur, með því að samþykkja frv. eins og það lá fyrir. En þrátt fyrir þessar undirtektir hv. nefndar var frv. samþ. í hv. Nd. og er nú hingað komið. Jeg er sammála hv. meiri hluta nefndarinnar í Nd. um það, að eigi sje heppilegt að koma þessari breyting á að svo stöddu. Hjer er að ræða um eina fasta gjaldstofninn, sem sveitarsjóðirnir hafa. Nú er því þannig farið, að flestir munu telja heppilegast að tekjustofnar sjeu sem mest fastir, þótt erfitt sje að koma því í framkvæmd. Það þurfa því að vera knýjandi ástæður, er rjettlæti það, að þessu sje þannig breytt, að ekkert fast komi í staðinn. Því verður að vísu ekki neitað, að síðan prests- og kirkjutíund var úr lögum numin, þá kemur fátækratíundin allmismunandi niður á þeim, sem eru í skiftitíund, og hinum, sem ekki eru það. En bæði er það, að öreigatíundin er ekki nema örlítið brot af sveitargjöldunum, og hins vegar munu hrepppsnefndir við niðurjöfnun aukaútsvara reyna að jafna misrjetti það, sem kemur fram við misháa tíundargreiðslu. Þegar þessa er gætt, sje jeg enga knýjandi ástæðu til þess, að málið sje látið ganga fram á þessu þingi. Því meira sem hreppsnefndir verða að jafna niður eftir áliti á efnum og ástæðum manna, því meiri hætta er á handahófsniðurjöfnun, og hætt er við, að þeim hreppsnefndum, sem ekki er trúandi fyrir að taka tillit til mismunandi tíundargreiðslu manna, muni ekki heldur vera sýnt um að jafna rjett niður útsvörum á menn, svo að ójöfnuðurinn verði eftir sem áður á sveitagjöldunum, þótt fátækratíundin sje afnumin.

Aðra ástæðuna fyrir því að frv. þetta er framkomið kvað hv. flutningsmaður þess vera þá, að svo örðugt væri að semja tíundarreikningana, og að það væri ofvaxið sumum, sem það ættu að annast. Jeg gjöri lítið úr þessari ástæðu; það er hvorki mikil tímatöf nje vandasamt að semja reikninga þessa. Og þó að nokkur tími gangi til að semja reikninga þessa meðan fátækratíundinni er haldið, þá er hins og að gæta, að ef hún er afnumin, þá verður hreppsnefnd að jafna meiru niður, en við það vex vandi hennar og niðurjöfnunin útheimtir enn meiri íhugun, svo að það sem vinst á aðra hliðina, tapast á hina.