25.07.1914
Efri deild: 18. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í B-deild Alþingistíðinda. (1491)

10. mál, afnám fátækratíundar

Kristinn Daníelsson; Stórmál er þetta ekki, en oft hefir mjer þó dottið í hug, að tími væri kominn til að afnema fátækratíundina. Það er satt, sem hv. 2. þm. Húnv. (G. Ó.) sagði, að þetta er eini fasti gjaldstofninn, sem sveitirnar hafa; en hann er svo lítill, að hans gætir varla.

Í mínum hreppi eru aukaútsvörin um 5000 kr. og allur sveitareikningurinn að upphæð um 8000 kr.; en af þessu er fátækratíundin ekki nema 90–100 kr.; nokkuð áþekt mun vera annarsstaðar. Það getur því ekki skift miklu máli á neinn veg, þótt fátækratíundin sje látin hverfa, og vandinn við að jafna niður aukaútsvörunum getur ekki aukist að neinum mun. En það er afnám prests- og kirkjutíundar, sem gjörir það sjálfsagt að afnema einnig fátækratíundina, því það skapar svo mikið misrjetti að halda henni. Þeir, sem eru í skiftitíund, losast nú við 2/3 hluti hinnarfornu tíundar, en þeir, sem eru í öreigatíund, verða að greiða hana alla, eins og áður hefir verið. Jeg veit að sumum hreppsnefndum hefir fundist svo mikið til um þennan ójöfnuð, að þær hafa látið þá,sem í öreigatíund eru, að eins greiða 1/3 hennar, til að koma jöfnuði á við hina. En hvorki er þetta lögum samkvæmt, og eigi munu heldur nándarnærri allar hreppsnefndir fylgja þessari venju. Af þessu, sem jeg hefi tilgreint, tel jeg sjálfsagt að afnema fátækratíundina sem fyrst, og afnema með því það misrjetti, að sá sem tíundar 4½ hundrað eða þar fyrir neðan, skuli verða að greiða alla þrjá hluta tíundarinnar, en hinn, sem tíundar 5 hundruð eða þar fyrir ofan, skuli ekki þurfa að greiða nema einn hluta hennar. Aftur á móti gjöri jeg ekkert úr erfiðleikunum við það að reikna út tíundirnar, og þeirra vegnamætti hún sjálfsagt halda sjer.