03.08.1914
Efri deild: 30. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í B-deild Alþingistíðinda. (1510)

32. mál, varadómari í landsyfirrétti

Framsögumaður (Steingr. Jónsson) :

Frumvarp því nær samhljóða þessu frv. lá fyrir Ed. fyrir tveim árum síðan, en varð þá eigi útrætt. Nú kom málið aftur fram í háttv. Nd. og hefir verið samþykt þar. Ástæðurnar fyrir því, að frumvarpið kom fram nú, munu hafa verið hinar sömu og þá, að það þykir hentugra og til meiri vegsauka fyrir landsyfirrjettinn, að ákveðið sje, að varadómarar í honum sjeu jafnan prófessorar við lagadeild háskólans, heldur en að stjórnin útnefni varadómara í hvert sinn, sem á þarf að halda. Þetta

mun og vera reglan erlendis, um hina æðstu dómstóla, að minsta kosti er það svo við hæstarjett í Danmörku og Noregi.

Það hefir sýnt sig, að það getur verið nokkrum örðugleikum bundið fyrir stjórnina, að fá varadómara til að dæma í landsyfirrjettinum, og er eigi langt á að minnast að það sýndi sig í einu allumfangsmiklu máli.

Nú getur það varla komið fyrir, að þennan vanda beri að höndum fyrir landsstjórnina, þegar búast má við, að jafnan sje nokkrum mönnum á að skipa, sem skyldugir eru að setjast í dómarasæti, ef þetta frv. fær framgang.

Jeg lít svo á, að ekki geti vafi leikið á, að þeir kennarar verði við háskólann, sem vel eru færir í þessa stöðu, og það er fremur sæmdarauki fyrir þá en hitt, að gegna henni.

Vil jeg því ráða háttv. deild til fyrir nefndarinnar hönd, að samþykkja frumvarpið. Þó vill nefndin ráða til litillar breytingar á 4. gr., er snertir þó eigi aðalmerg málsins.

Það er sjálfsagt, að ef varadómari gegnir dómaraembætti um lengri tíma, þá sje fylgt þeirri almennu reglu, að hann njóti hálfra launa dómaraembættisins um fram sín kennaralaun; en annari reglu verður að fylgja, ef hann dæmir að eins einstakt mál, og þar viljum vjer breyta lítils háttar frá því, sem er í frumvarpi háttv. Nd., þar sem gjört er ráð fyrir, að varadómarinn eigi að fá 10 kr. fyrir hvert rjettarhald og 30 kr. að auki, ef hann tekur þátt í dómsuppkvaðningu í máli. Breyting sú, sem nefndin fer fram á, að gjörð sje á frv. háttv. Nd., er sú, að varadómari fái 44 kr. fyrir hvert mál, er hann tekur þátt í dómsuppkvaðningu þess, en ekkert sjerstakt gjald fyrir hluttöku í rjettarhöldum. Þetta mun venjulega verða sama borgun, sem gjört er ráð fyrir í frv. háttv. Nd., að varadómarinn fái alls. Þó geta komið fyrir þau tilfelli; að eigi sje það hið sama, t. d. ef dómari forfallast í bili og varadómari kemur í hans stað, þá getur verið að hann þurfi ekki að sitja nema örfáar mínútur í dóminum og eigi gjöra annað en að skrifa undir rjettarbókina. Þetta er svo lítið starf, að ástæðulaust virðist að greiða sjerstakt gjald fyrir, og er ekki þung kvöð, þótt lögð sje endurgjaldslaust á.

Aftur á móti teljum vjer rjett, að greidd sje sæmileg borgun fyrir að taka þátt í dómsuppkvaðningu. Þó mun ekki ástæða til að setja borgunina hærri en vjer höfum stungið upp á, því að kennarar við lagadeildina eru allsæmilega launaðir, þótt laun þeirra megi að vísu ekki teljast há.

Þess er getið í nefndarálitinu, að mig greini nokkuð á við meðnefndarmenn mína um eitt atriði. Mjer hefði þótt betur fara á því, að hlutkesti væri eigi látið ráða því, hver varadómaranna skyldi setjast í dómarasæti það og það sinn, heldur ákveði stjórnin það. Jeg get hugsað mjer að fyrir geti komið, að örðugt sje að koma við hlutkesti. En að kappsmáli vil jeg ekki gjöra þetta, og fer því ekki lengra út í það.

Vona jeg svo, að tillögum nefndarinnar verði tekið vel og málið fái góða afgreiðslu hjer í deildinni.