04.08.1914
Efri deild: 31. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í B-deild Alþingistíðinda. (1528)

2. mál, sauðfjárbaðanir

Guðmundur Ólafsson:

Jeg ætla að gjöra nokkrar athugasemdir við hina glöggu og góðu ræðu háttv. þm. Ísfjk. (S. St.).

Hann áleit, að ákvæði þessa frumvarps minkaði tryggingu þess, að lögunum um sauðfjárbaðanir væri hlýtt. En jeg get ekki gjört mikið úr þessu atriði. Í lögunum stendur, „að hreppsnefndir skuli annast útvegun baðlyfja“; hjer í frumvarpinu

segir, að þær skuli hlutast til um, að allir fjáreigendur panti næg baðlyf. Jeg sje ekki mikinn mun á þessu. Áður áttu hreppsnefndir sjálfar að panta. Nú þurfa þær ekki að gjöra það; sjálfar; að eins sjá um, að það sje pantað. Í báðum tilfellum verður það vanrækslu hreppsnefnda að kenna, ef ekki er pantað. Baðlyfin geta orðið oflítil, þó að hreppsnefndir panti, alveg eins og þó hver einstaklingur panti. Að því leyti ber alveg að sama brunni. En sá er munurinn, að ef einhver pantar oflítið, er ekki hægt að bæta við það að vetrinum til, meðan núgildandi lög eru óhögguð; en ef þetta frumvarp verður að lögum, má gjöra ráð fyrir, að alt af megi fá baðlyf í næsta kauptúni. Hver má kaupa baðlyf þar sem honum sýnist nú. Það eru minni líkur til, að baðlyf sjeu alt af næg eftir núgildandi lögum heldur en eftir þessu frumvarpi. Hjer er, að mínu áliti, tryggilegar búið um hnútana að því er þetta snertir.

Háttv. þm. Ísfjk. (S. St.) sagði, að lögin væru enn ekki komin í framkvæmd, sem reyndar er ekki allskostar rjett frá skýrt, og því væri viðurhlutamikið að breyta þeim. En jeg hygg að það sje mjög vanalegt, að nýjum lögum sje breytt, þeim, ef til vill, breytt hvað mest. Framkvæmd laga þessara byrjar líka alt annað en álitlega, og alls ekki samkvæmt fyrirmælum þeirra. Stjórnarráðið gefur ekki út auglýsingu um, hver baðlyf skuli nota. fyr en 16. júlí, löngu síðar en pantanir utan af landinu eiga að vera komnar í þess hendur, og hreppsnefndir þannig í byrjun neyddar til að brjóta lögin. Það sýnir ekki, að lögin geti ekki verið betri Hreppsnefndirnar vita ekki fyr en í ágúst, hvaða baðlyf þær eigi að panta. Þessar pantanir geta ekki komið stjórnarráðinu í hendur fyr en í september. Af þessu getur svo aftur leitt, að baðlyfin komi mjög seint. Það má auðvitað vera, að þau komi nógu snemma til þess að hægt sje að baða á lögboðnum tíma. Baðanirnar eiga að fara fram á tímabilinu frá miðjum nóvember til miðs janúar. En það er ekki sama, hvort menn fá baðlyfin að haustinu eða þegar komið er fram á vetur, svo að gjöra verður sjerstaka ferð eftir þeim.

Enn ber það að athuga, að kent hefir þegar óánægju með, hvaða baðlyfjum megi velja úr. Það er t. d. víst, að Coopers baðlyf hafa reynst vel, þar sem þau hafa verið notuð, en þau eru ekki í baðlyfja auglýsingu stjórnarráðsins.

Jeg fæ ekki sjeð, að minni trygging sje fyrir framkvæmd laganna, þótt frumvarpið verði samþykt. En það hefir í för með sjer þau þægindi, að menn geta fengið baðlyfin hjá þeim kaupmanni, sem þeir skifta við. Og það mælir ekki með því, að stjórnarráðið annist pantanirnar, að menn verða nú að kaupa baðefnin dýrari en áður, og hefði háttv. þm. Ísfjk. (S. St.) vel mátt minnast á þá óánægju, er sprottið hefir af því, og að sú von síðasta Alþingis, að baðlyfin verði ódýrari með því, að stjórnarráðið annist innkaup á þeim, sýnist eftir þessari byrjun ekki ætla að rætast.