04.08.1914
Efri deild: 31. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í B-deild Alþingistíðinda. (1530)

2. mál, sauðfjárbaðanir

Framsögum. meiri hlutans (Jósef Björnsson ):

Jeg hefi ekki ástæðu til að svara háttv. þm. Ísfjk. (S. St.) miklu, því að háttv. þm. Húnv. (G. Ó.) hefir tekið af mjer ómakið.

Jeg vil aðeins minnast á, hvort ástæða sje til að óttast, að skortur verði á baðlyfjum, eins og háttv. þm. Ísfjk. (S. St.) mintist á, ef frumvarpið yrði samþykt. Jeg er ekki hræddur um, að baðlyf vanti, þótt frumvarpið verði samþykt. Jeg tel líklegt, að baðlyf liggi fyrir á ýmsum stöðum, er um frjáls kaup er að tefla. Þá er meiri ástæða til að hafa birgðir fyrirliggjandi.

Jeg játa, að hreppsnefndir eigi hægra aðstöðu að sjá um þetta í heild eftir gildandi lögum, en tel samt vafalaust, að hægt verði að fá alt fje baðað, þótt frumvarpið verði að lögum. Með því að mjer er kunnugt, að ýmsum bændum, bæði hjer á þingi og utan þings, leikur mikill hugur á, að fá þessu ákvæði laganna breytt, álít jeg rjett að gjöra það. Jeg get ekki skrifað undir, að það sjeu trassarnir, er vilja fá því breytt. Þeir (trassarnir) eru ekki svo margir, að það sje frágangssök að ganga að þeim, hverjum einstökum, og láta þá sæta ábyrgð fyrir vanrækslu sína og hirðuleysi. Hákon Kristófersson: Jeg skal ekki vera langorður.

Þó jeg geti að miklu leyti verið samþykkur meiri hluta nefndarinnar, er jeg það ekki að öllu leyti. Jeg álít að orðin að „hlutast til um“ í 3, gr. sjeu varhugaverð. Jeg held, að þau geti orðið til þess, að margir panti ekki baðlyf. Jeg þekki svo vel til í þessu efni, að jeg þykist geta fullyrt það. Jeg játa, að þeir, sem æskja breytingar á þessu, hafi allmikla ástæðu til þess, þar sem baðlyfin verða nú dýrari, er stjórnarráðið pantar þau, en þau hafa áður verið. Annars sýnist mjer frv. að ýmsu leyti til bóta. Jeg vildi skjóta því til nefndarinnar, hvort ekki mætti gjöra breyting á þessu við 3. umr. Jeg kýs helst, að hreppsnefndirnar kaupi fyrir allan hreppinn í einu. Það er ómögulegt að baðlyfin verði dýrari, þótt hreppsnefndir panti þau. Jeg hefi sjálfur pantað baðlyf fyrir nokkra sveitunga mína, og gafst það vel. En jeg hefi reynslu fyrir mjer í því, að ef menn sjá einhverja glufu á svona lögum, þá fara menn út um hana. Einkum mun það brenna við á útigangsjörðum, að menn tregðist við að baða.

Þar sem ætla má, að baðlyfin komi síðla sumars heim í hreppana, þá gæti það komið til álíta, hvort tímabilið, sem leyft er að böðun megi fara fram á, sje ekki of langt fram á veturinn. Þessu verður auðvitað tæplega breytt að þessu sinni, enda engar óskir komið fram í þá átt.