04.08.1914
Efri deild: 31. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í B-deild Alþingistíðinda. (1532)

2. mál, sauðfjárbaðanir

Guðmundur Ólafsson:

Hv. þm. Ísf. (S. St.) tók það dæmi að bóndi, sem ætti 100 fjár, pantaði ekki baðlyf nema handa 50 fjár, og þá ætti hreppsnefndin að bæta við pöntun hans. En ef fara ætti eftir öðru en pöntunum bænda sjálfra, gætu hreppsnefndirnar átt á hættu, að baðlyfin gengju ekki út og að sveitarsjóðirnir yrðu oft að liggja með meira eða minna af baðlyfjum. Hreppsnefndum getur ekki verið jafnvel kunnugt um og fjáreigendum sjálfum, hve mikil baðlyf hver þeirra þarf að nota við næstu böðun. Jeg get enn sem fyr ekki sjeð þenna mun, nema til hins betra á frv. og hinum gildandi lögum. Eftir báðum bera hreppsnefndirnar ábyrgð á, ef vanræksla á sjer stað. Eftir núgildandi lögum annast þær pantanir á baðlyfjum. Það er sama sem að þær panti þau sjálfar. Eftir frv. eiga þær að „hlutast til um“ að baðlyf sjeu pöntuð. Það er sama sem að þær eigi að sjá um að það sje gjört. Munurinn gjörir lítið til. Hreppsnefndin á, bæði eftir lögunum og frv., að sjá um að baðað sje og baðlyf sjeu til.

Það hefir ekki verið haft á móti því, að baðlyf hafi verið ódýrari en nú, er stjórnarráðið pantar þau, og það ætti að vera nokkurs virði.