04.08.1914
Efri deild: 31. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í B-deild Alþingistíðinda. (1533)

2. mál, sauðfjárbaðanir

Framsögum. meiri hlutans (Jósef Björnsson) :

Hv. þm. Barðstr. (H. K). mintist á, hvort ekki mætti breyta frv. við 3. umr. Nefndin getur vitaskuld tekið það til athugunar, og eins getur hv. þm. Barðstr. komið með brtt. En ef breyting yrði gjörð á frv., yrði það að líkindum til þess, að málið strandaði vegna þess, hve tíminn er nú orðinn naumur. Meiri hluti nefndarinnar verður því að ráða til, að samþykkja frv. óbreytt. Jeg skal og taka það fram, að þetta orðalag í frv. „hlutast til um“ ætti að geta orðið til að stuðla að því, að bændur hefðu samtök um pantanir. Það kom einmitt fram í ræðu hv. þm. Barðstr., að hann hefði pantað fyrir aðra, svo að hann þekkir nú þegar dæmi til frjálsra samtaka í þessu efni, og þau dæmi eru mörg til. Það er sennilegt, að hreppsnefndirnar gætu komið því til leiðar, að allir hreppsbændur pöntuðu í einu lagi.