06.08.1914
Efri deild: 33. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í B-deild Alþingistíðinda. (1555)

55. mál, vörutollur

Steingrímur Jónsson:

Jeg get byrjað með því, að taka undir með háttv. 2. þm. G.-K. (K. D.), eftir því sem mjer skildist að liggi bak við orð hans, að best hefði verið að frumvarp þetta hefði alls ekki komið fram, og að ekki væri af nýju verið að grauta í þessum vörutollslögum. Það var óheppilegt, að nokkurn tíma var verið að byrja á því í fyrra. En þingið svignaði þá fyrir kröfum, sem komu úr ýmsum áttum ,um, að koma meira jöfnuði á tollgjaldið en þá þótti vera. Þingið gekk þá þegar heldur langt í breytingum sínum, og gjörði innheimtuna erfiðari.

Nú á enn af nýju að gjöra tvær meinlegar höfuðbreytingar.

Annað er það, að auka innheimtuerfiðleikana með ýmsum nýjum undantekningum, sem farið er fram á.

Hitt er það, að ýmislegt af því, sem í fyrra var fært inn í 2. lið. 1. gr. vörutollslaganna, og tollurinn á því um leið lækkaður niður í 25 aura á 100 pundum, af því að sanngirni þótti mæla með því, á nú ekki lengur að teljast þar, heldur er því kipt í burtu.

Það er því ekki hægt, að því er mjer virðist, að fallast á frumvarpið eins og það kom frá háttv. Nd., hvort sem lítið er á það frá sanngirninnar sjónarmiði, eða vegna þess að það gjöri innheimtuna auðveldari. Eins og jeg gat um, þá hefir háttv. Nd. kipt burt með frv, sínu ýmsu, sem lækkað var í fyrra. Það eru að eins örfáar tegundir, sem færðar hafa verið í lægra flokk. Úr 1. flokki er smjörsalt tekið og ætlast til að sami tollur sje greiddur af því sem almennu salti. Í 2. flokk eru teknir upp kvarnarsteinar, en aftur felt úr honum seglgarn, sem þá flytst í 6. flokk. Enn fremur á eftir frumvarpinu innflutt hey að vera tollfrítt; má það teljast sanngjarnt, því að hey er vart flutt hingað til lands, nema í neyð. Svo hefir nefndin hjer í deild lagt það til, að beitusíld skyldi gjaldfrí. Mun það bæði vera sanngjarnt og gjörir varla innheimtuna erfiðari.

Fari svo, að 1. liður í brtt. nefndarinnar verði feldur, mun jeg greiða atkvæði móti frumvarpinu; tel ekki rjett, að það gangi fram óbreytt.