31.07.1914
Efri deild: 23. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í B-deild Alþingistíðinda. (1582)

101. mál, Norðurálfuófriðurinn

Steingrímur Jónson:

Öllum mun vera kunnugt um upptökin að frumvarpi því, sem hjer liggur fyrir. Það er upphaflega samið af fjölmennri nefnd, sem skipuð var mönnum úr öllum flokkum þingsins, og voru fjórir nefndarmennirnir úr þessari háttv. deild. Síðan hefir málið verið rætt í sameinuðu þingi og háttv. neðri deild, og þarf því engra frekari skýringa við hjer. Jeg hygg að allir muni telja það sjálfsagt að samþykkja það þegar í stað. Jeg ætla því að eins að láta örfá orð fylgja frumvarpinu úr hlaði hjer í deildinni. Fyrst vil jeg leyfa mjer að benda á, að hjer er að eins um heimildarlög að ræða, — að stjórninni er veitt heimild til þýðingarmikilla og ábyrgðarmikilla aðgjörða, ef stóran háska ber að höndum. Til þess að styðja stjórnina í þessum vanda og til þess að standa á verði fyrir hönd Alþingis, á svo þingið að útnefna 5 manna nefnd. Þess ber vel að gæta, að til þeirra örþrifaráða, sem heimiluð eru með lögunum, má því að eins grípa að hættan sje mikil og bersýnileg. Við þetta miðast alt frumvarpið. Auðvitað eru þetta ekki nema bráðabirgðalög, sem í hæsta lagi eiga að gilda þangað til næsta þing kemur saman. —- Jeg vona að frumvarpið fái greiðan gang hjer um deildina og verði samþykt .með öllum atkvæðum.