05.08.1914
Neðri deild: 35. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í B-deild Alþingistíðinda. (159)

77. mál, notkun bifreiða

Sigurður Sigurðsson:

Eins og háttv. þingdeildarmenn sjá, hefi eg skrifað undir nefndarálitið með fyrirvara.

Þessi fyrirvari á þó ekki að þýða það, að eg sé mjög svo óánægður með frumv., það sem það nær. Eg get þvert á móti lýst yfir því, að eg tel frumv., ef það verður að lögum, góða og nauðsynlega réttarbót, og eg vil á. engan hátt verða valdur að því að hindra framgang þess. Eg vona að það verði samþykt hér, hvað sem líður breyt.till. mínum og háttv. 1. þm. Rvk. (Sv. B.). En fyrirvari minn byggist á því, að mér þótti nefndin fara of skamt í sumum greinum. Það vóru sérstaklega tvö atriði, sem eg vakti athygli á í nefndinni. Í fyrsta lagi það, hvort ekki væri rétt að leggja skatt á bifreiðarnar. Mér hefir verið sagt það af fróðum mönnum, að slíkur skattur eigi sér stað annarstaðar. En meðnefndarmenn mínir gátu ekki fallist á þetta., og varð eg því að fara ofan af þessari kröfu.

Hin krafan var í því fólgin, að takmarka að einhverju leyti umferðina á veginum hér austur um sýslur. Nefndin sá sér heldur ekki fært að taka þessa kröfu mína til greina, og afleiðingin varð sú, að eg hefi leyft mér að koma fram með breyt.till. á þgskj. 316, sem fer fram á það, að hér sé lögleidd einhver takmörkun að því er snertir umferð bifreiða á veginum frá Reykjavík og austur yfir Hellisheiði. En ef menn athuga breyt.till., þá munu menn sjá, að hér er ekki um neina þá takmörkun að ræða, sem geri það að verkum, að bifreiðum verði ókleift að fara um veginn. Hér er að eins farið fram á, að vissa tíma megi bifreiðar ekki vera á ferðinni um veginn frá Reykjavik og austur yfir Hellisheiði nema á nóttum og auk þess tvo daga í viku, sunnudaga og miðvikudaga. Þessir tímar eru, eins og sjá má af brtill., tímabilið frá 20. júní til 10. júlí og frá 20. sept. til 20. okt. Menn sjá af þessu, að þessi takmörkun er hógvær og fer skamt í sjálfu sér, þar sem ætlast er til að umferð sé leyfð á nóttum, frá kl. 10 að kvöldi og til kl. 6 að morgni, og auk þess tvo daga í viku. Takmörkun þessi, það sem hún nær, er bygð á því, að einmitt þessa tíma árs er langmest umferð um veginn. Og hvað sem menn segja um það, að bifreiðarnar valdi ekki töfum, þá veit eg að þær valda óreglu, trafala og töfum, einkanlega þegar umferðin er mikil. Ef þessi takmörkun yrði sett, þá myndi menn haga ferðum sínum svo, að menn hitti sem sjaldnast bifreiðar á veginum. Menn myndi gæta þess, að vera ekki á ferðinni á nóttum og heldur ekki sunnudaga og miðvikudaga.

Eg vænti að tillagan fái góðar undirtektir, því að hún er bygð á fylstu sanngirni.

Um 2. brtill. við 7. gr. skal eg ekki orðlengja. Hún er að eins fólgin í því að ákveða, hvernig þetta merki, sem talað er um í 7. gr. frumvarpsins, skuli vera. Mér þykir vænt um að háttv. 1. þm. Rvík (Sv. B.) hefir fallist á þessa tillögu.

Eg vona að menn sjái, að með brtill. háttv. 1. þm. Rvík. um að breyta 13. gr. og fella í burtu 14. og 15. gr. er verið að kippa fótunum undan þeirri varúð, sem annars gengur eins og rauður þráður gegnum alt frv.

Háttv. 1. þm. Rvk. gat þess réttilega, að ákvæði 13. gr. væri tekin eftir norskum og dönskum lögum. Það sýnir einmitt hve hræddir þeir hafa verið um, að tjón gæti hlotist af bifreiðunum. Hingað til hefir ekki þótt neitt athugavert við það, að »dependera« af þeim dönsku og oft verið vitnað í lög þeirra. Dönsk lög hafa verið þýdd á Íslenzku og lögleidd hér, með litlum eða engum breytingum. Eg sé því ekki að vér getum ekki eins gert það, hvað þetta frumvarp snertir, einkum þegar lög þeirra í þessu efni eru á miklu viti bygð. Eg hefi heldur ekki heyrt þess getið, að Danir hafi breytt þessu ákvæði. Hafi þeir ekki gert það, þá er það eingöngu vegna þess, að þeim hefir þótt nauðsynlegt að halda því. Ferðamennirnir eiga örðugra um sönnun fyrir því, hverjum slysið sé að kenna en bifreiðarstjóri og þeir, sem í vagninum sitja. Á þessu er ákvæði dönsku og norsku bifreiðarlaganna bygt og vegna þessa hefir það verið tekið upp í þetta frv.

Eg vona því, að brtill. á þgskj. 333 verði feld. Verði hún samþykt, þá finst mér eins og dregið úr þeirri sjálfsögðu skyldu bifreiðarstjóra til að vera á verði og gæta allrar varúðar. Öll varkárni er nauðsynleg í þessu efni og löggjöfin má ekki gera neitt til þess að draga úr henni.

Mér datt í hug þegar háttv. 1. þm. Rvík (Sv. B.) var að tala, hvort ekki myndi nokkuð skylt skeggið hökunni hvort ekki gæti verið, að hann væri einn af þátttakendum í þessu bifreiðafyrirtæki. Eg fullyrði það auðvitað ekki, en svo mikið er víst, að hann er mjög mikill vinur þessara bifreiða.

Eg get ekki séð, að Játvarður Englakonungur komi þessu máli mikið við. En það er ekki nema eðlilegt, að þeim mönnum detti konungar oft í hug, sem ef til vill hugsa sér að gerast þeim handgengnir. — Útlendir þjóðhöfðingjar eru ekki farnir að heimsækja oss enn þá, að neinum mun, en verði svo síðar, þá koma dagar og þá koma ráð. Þessi varfærni mín gagnvart bifreiðunum er ekki bygð á því, að eg sé hræddur við þær — síður en svo. — En eg ber þá menn fyrir brjóstinu, sem eftir vegunum ferðast og auðvitað mína kæru kjósendur og þá ekki síður Flóamennina en hina.

Háttv. 1. þm. Rvík sagði, að nær væri að banna kerrulestum umferð á vegunum en »bílunum«, En hvernig stendur á því, að einn maður fer með margar kerrur? Það er ekkert annað en einföld hagfræði, til þess að spara það, að þurfa að senda einn mann með hverjum vagni. Eg segi ekki, að neinn nýtízkubragur sé á þessu — en það er af »praktiskum« ástæðum að það er gert.

Þá vitnaði háttv. þm. (Sv. B.) í það, að þessi fræga bifreiðanefnd efri deildar, með landlækninn í broddi fylkingar, hefði farið í bifreið austur fyrir fjall, mætt bæði mörgum mönnum og mörgum hestum — og enginn hefði virzt verða hræddur og það sem það hefði verið, hefði það fremur verið mennirnir en skepnurnar. En þetta ferðalag landlæknisins og nefndarinnar er ekki sambærilegt við daglega umferð. Hér er að ræða um prófferð, sem bifreiðarstjóranum er kunnugt um og þess vegna reynir hann að fara sem gætilegast. Ferðalag þessara háu herra er því engin sönnun í þessu máli. Maðurinn veit, að alþingismenn eru í ferðinni og þessi ferð er rannsóknarferð á bifreiðunum og bifreiðarfélagið hefir mestan hag af því, að alt fari vel úr hendi og engin spjöll verði.

Eg þykist nú hafa fært næg rök að þessu máli og vænti þess því, að mín brtill. og frv. ásamt tillögum nefndarinnar fái góðar undirtektir og gangi sinn gang í gegnum þingið.