10.08.1914
Efri deild: 36. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í B-deild Alþingistíðinda. (1619)

84. mál, hornviti á Grímsey á Steingrímsfirði

Magnús Pjetursson:

Þessi heimildarlög eru ein af þeim bráðnauðsynlegu og óhjákvæmilegu fjárveitingum, sem þingið neyðist til að veita stjórninni heimild til að greiða. Þessi fyrirhugaði viti á Grímsey er beint skilyrði fyrir að Björgvinjarskipin sigli á vesturhluta Húnaflóa.

Jeg skal taka það fram, að þessi fyrirhugaði viti á ekki einungis að vera leiðarljós fyrir innsiglinguna á Hólmavík, heldur og fyrir opnuna milli Vatnsness og Stranda eða inn á hafnirnar Hvammstanga, Borðeyri, Bitru og Hólmavík.

Það, sem sjerstaklega kom mjer til að standa upp, var það, að jeg vildi benda á, að þó í frv. standi hornviti á Grímsey, þá er það meining frv., að þar í sjeu innifaldir tveir smærri vitar, sem Krabbe verkfræðingur telur nauðsynlega til að lýsa upp innsiglinguna á Hólmavík. Með öðrum orðum, að þetta frv. ætlast til að stjórninni heimilist, að veita til þessara vita kr. 18,100 samkvæmt áætlun verkfræðingsins um bygging og rekstur vitans. Þessu vildi jeg slá föstu til leiðbeiningar fyrir stjórnina, og skoða jeg það svo, að hv. deild sje mjer samdóma um þetta efni, ef enginn hreyfir mótmælum gegn því.

Jeg skal annars geta þess, að eftir samtali við Krabbe verkfræðing, þá er ekki atveg víst, að þessir vitar geti komist upp á næsta hausti. Er það meðal annars ófriðurinn sem veldur því. Sumir hlutir til vitans áttu að koma frá París og Þýskalandi, en mjög óvíst að þeir fáist í tæka tíð. Samt sem áður er möguleiki á að vitinn komist upp, og því er sjálfsagt að veita stjórninni heimildina, ef á þarf að halda.