05.08.1914
Neðri deild: 35. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í B-deild Alþingistíðinda. (162)

77. mál, notkun bifreiða

Framsögumaður (Eggert Pálsson):

Eg get byrjað með því að þakka háttv. þm. Ak. (M. Kr.) fyrir það, hvernig hann tók í þetta mál. Mér skildist, að hann væri samþykkur meiri hluta nefndarinnar í öllum aðalatriðum, og að hann mundi greiða öllum breyt.till. hans atkvæði nema þeirri 3. og 4. En það er meiri hlutanum heldur ekkert kappsmál, hvort þær verða samþyktar eða ekki, því að þær eru nánast orðabr. og ekki annað. Nefndarmönnunum fanst það að eins »tautologi«, sem kallað er, upphafið og endirinn á 6. gr. frumv., og því hafa þeir lagt það til, að fyrsta og síðasta setning greinarinnar væri látnar falla burtu. En eins og gefur að skilja, finst þeim það ekki skifta miklu máli.

Hvað snertir afstöðu mína til þeirra tveggja meðnefndarmanna minna, sem hér deila, þá er það dálítið einkennilegt, að eg verð að berjast jafnt gegn báðum, þótt sinn hafi hvora stríðsaðferð. En það er bót í máli, að það dylst engum, að þeir bera jafnframt vopn hvor á annan, og vænti eg því fremur þess, að þeir falli báðir óvígir að lokum.

Um brt. háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) finn eg ekki ástæðu til að tala, enda býst eg ekki við, að hún fái sérlega mikið fylgi í hinni háttv. deild.

Að því er snertir brt. háttv. 1. þm. Rvíkur (Sv. B.) er aðstaða mín að því leyti ill, að flutningsm. hennar er lögfræðingur, og á því hægara með að verja insta eðli þess lagaspursmáls, sem um er að ræða, heldur en eg að mæla á móti því. En það hefi eg þó máli mínu til stuðnings, að fleiri lögfræðingar hafa fjallað um þetta mál en hann, þar sem bæði norskir og danskir lögfræðingar hafa haft það til meðferðar, og ekki fundist það ákvæði, sem háttv. 1. þm. Rvíkur (Sv. B.) hneykslast á, svo varhugavert, að það hafi verið numið burtu, eða því breytt, í samskonar lögum í Danmörku og Noregi. Auk þess er þetta frumv. lagt fyrir þingið af stjórninni og er þá gefið, að íslenzkir lögfræðingar hafa haft þetta ákvæði til yfirvegunar, og ekki fundið það sérstaklega háskalegt. Það eru því sýnilega til þeir lögfræðingar, og ekki svo fáir, sem hafa sömu skoðun á þessu atriði eins og meiri hl. nefndarinnar.

Háttv. 1. þm. Rvíkur (Sv. B.) vildi halda því fastlega fram, að rétt væri, að bifreiðarstjóri og lestaratjóri stæði jafnt að vígi, að því er snertir umferð á vegunum. Það álít eg ekki allskostar rétt, vegna þess, að vegirnir voru upphaflega gerðir fyrir lestir, en ekki fyrir bifreiðar. Þess vegna er rétt, að lestarstjórinn sé rétthærri en bifreiðarstjórinn. Og því fremur á hann að vera rétthærri, þar sem engin von er til þess, að bifreiðarferðir geti komið í staðinn fyrir lestaferðir. Fyrst um sinn að minsta kosti, verða menn að gera ráð fyrir því, að lestaferðir haldist, þó að bifreiðar gangi jafnframt. Þær verða æfinlega meira til gamans, heldur en til verulegra nota.

Háttv. 1. þm. Rvíkur (Sv. B.) skaut því til mín, hvort eg áliti ekki, að bifreiðarnar gæti verið til gagns, jafnframt því að vera til skemtunar. Jú, eg neita því ekki, og heldur ekki að það geti komið fyrir að sveitamenn hafi einhver not af þeim, enda sæti það sízt á mér að neita því, þar sem eg verð að játa, að eg hefi sjálfur haft gagn af bifreið. En þó að slík tilfelli megi finna, eitt, tvö eða þrjú, þá er ekki hægt að draga af því þá ályktun, að bifreiðarnar sé til almennra nota. Það eru þær ekki orðnar enn, og eg býst ekki við, að þær verði það í bráð. Hitt veit eg, að talsverðum ýmigusti hefir andað á móti bifreiðunum frá almenningi hér á landi, og svo hefir það verið víðar, eftir því sem háttv. 1. þm. Rvíkur (Sv. B.) upplýsir. Eg skal ekki fullyrða neitt um hvort ástæða er til þessa ýmigusts, en úr því að hann er til, þá finst mér ekki alla kostar rétt, að taka ekkert tillit til hans, meðan tækin eru að ryðja sér til rúms. En ef það nú sýndi sig í framkvæmdinni, að almenn not yrði að bifreiðunum, þá væri altaf hægt að slaka til á ákvæðum laganna, ef þau þætti of hörð. En eg verð að halda því fram, að fyrst um sinn sé ekki rétt, að bifreiðarstjórinn sé jafnrétthár og hver annar, sem um veginn fer, í tilliti til slysa.

Það er alveg rétt, sem háttv. þm. Ak. (M. gr.) tók fram, að bifreiðarstj. stendur betur að vígi að sanna sakleysi eitt, en sá sem mætir honum, ef til vill einn á ferð, að sanna sekt hans. Bifreiðarstjórinn hefir alla jafna menn með sér, sem væntanlega eru honum hliðhollir fremur en manni þeim, sem honum mætir.

Háttv. 1. þm. Rvíkur (Sv. B.) Skaut því fram í ræðu sinni um þetta mál, að kerruflutningur væri í rauninni alveg ótækur og hann ætti eiginlega að banna. Það er nú svo. öðru eins og þessu er hægt að skjóta fram, en það verður ekki framkvæmt nema með því, að gera um leið alla flutninga ófæra. Það er ekki hægt að skylda alla fátæklinga til að kaupa sér fjórhjólaða vagna, eins og þau áhöld eru dýr, til þess að flytja á alt, sem þeir þurfa, bæði frá sér og til sín. Það eina hugsanlega væri þá það, að einstaklingarnir hætti að flytja sjálfir vörur sínar, en félag tæki að sér allan flutning fyrir menn. En reynslan er nú sú, að það er altaf tilfinnanlegra fyrir menn að kaupa flutning á vörum sínum, heldur en ef þeir annast hann sjálfir. Það er

tilfinnanlegra fyrir fátæklingana, að minsta kosti finst þeim það sjálfum, að eiga að borga 2–3 aura undir hvert pund, sem þeir þurfa að láta flytja, heldur en að nota hesta sína og kerrur til þess. Að minsta kosti til þess að slík breyting kæmist á, yrði aðrar þær ástæður að vera fyrir hendi, en nú eru. Eg hygg að þessi breyting, að harðbanna bændum að nota kerrur til flutninga, geti ekki komið til nokkurra mála, eins og sakir standa. Bændum mundi þykja það hart, að vera neyddir til að kaupa af öðrum flutning á öllum nauðsynjum sínum, eða að kaupa dýrt áhald til flutninga að öðrum kosti. Nei, menn hætta ekki og geta ekki alment hætt að nota kerrur sínar, fyrr en betra flutningatæki er í boði en nú er, sem sé járnbraut.

Ef till. háttv. 1. þm. Rvíkur (Sv. B.) verður samþykt, finst mér lögin verða að miklu leyti óþörf. Eg játa reyndar, að þau verða þörf að því leyti, sem snertir þekking bifreiðarstjórans gagnvart mönnum þeim, sem hann flytur, en aftur á móti hafa þau sama sem ekkert að þýða gagnvart þeim mönnum, er bifreiðunum mæta.

Ef að eins almennar réttarfarsreglur eru látnar gilda um það, sem út af ber, að því er bifreiðarferðirnar snertir, þá er með því slegið striki yfir allar varúðarreglur, eða því sem næst.

Eins og tekið hefir verið fram, eru ákvæðin um sönnunarskylduna í þessu frumv. samhljóða því, sem er í samskonar lögum í öðrum löndum. Eg skil ekki, að þar hafi þau ákvæði verið sett að ástæðulausu, og úr því að þau hafa ekki enn verið numin úr gildi, þá tel eg víst, að þau hafi ekki reynst óþörf. Og eins hlýtur hér að fara. Eg skal ekki segja neitt um lagalegu hliðina á þessu máli, eg álít að fremur beri að taka tillit til hins »praktíska« heldur en til hins »theoretiska«, að því er þetta snertir.