11.08.1914
Efri deild: 37. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í B-deild Alþingistíðinda. (1635)

83. mál, styrkur fyrir Vífilsstaði

Steingrímur Jónsson :

Jeg er með brtt, á þskj. 468, ekki af því að jeg haldi, að heilsuhælið sje ekki fjárþurfa, heldur vegna hins, að jeg vil sýna stjórn hælisins, að það tjáir ekki að kasta allri sinni áhyggju upp á landssjóð. Hælið er orðið hrein og bein líknarstofnun, ekki einungis fyrir fátæklinga, heldur einnig fyrir efnamenn. Engin sjúkrahúshola úti um landið er eins ódýr og Vífilsstaðahælið. Ráðið er auðvitað ekki að ofþyngja fátæklingum, en hitt er með öllu óhæfilegt, að láta efnamenn liggja á hælinu sem þurfalinga landssjóðs. Við þá þarf að hækka meðgjöfina, og svo þarf að mynda sjóði um land alt, til þess að útvega fátæklingum frípláss, hálft frípláss o. s. frv. Stjórn hælisins hefði fyrir löngu átt að beina starfsemi sinni í þá átt. Það væri hart, ef landssjóður ætti að taka að sér hælið með þeirri kvöð, að það ætti að vera líknarstofnun fyrir efnamenn. Mjer dettur ekki í hug, að sjúklingurinn eigi að öllu leyti að borga leguna en mjer fyndist sanngjarnt, að þeir efnaminni borguðu kr. 1,75 kr. 2,00 á dag og efnamenn talsvert meira. En að landssjóður ausi alt af fje í hælið, getur, að jeg hygg, beinlínis hindrað þá þörfu framför, að sjúkrasjóðir myndist hjer á landi.