11.08.1914
Efri deild: 37. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í B-deild Alþingistíðinda. (1636)

83. mál, styrkur fyrir Vífilsstaði

Magnús Pjetursson:

Jeg þarf ekki mörgu að svara hv. 3. kgk. (Stgr. J.). Hann sagði, að stjórn hælisins ætti ekki að kasta allri sinni áhyggju á landssjóð. En það er víst engin hætta á því; stjórnin stendur sjálf í stórum ábyrgðum fyrir hælið, og þegar svo er í pottinn búið, er óþarfi að sveigja því að mönnum, að þeir varpi af sjer áhyggjunum á aðra. Heilsuhælisstjórnin hefir áreiðanlega nógar áhyggjur eftir, þó styrkurinn til hælisins væri alt að 20 þús. Þá sagði hv. þm. að engin sjúkrahúshola á landinu væri eins ódýr eins og heilsuhælið. Þetta er alveg rangt; á sjúkrahúsinu í Hólmavík þurfa sjúklingarnir í. d. ekki að borga meira en kr. 1,15 á dag. Það verða menn og að gjöra sjer ljóst, að ef hækka á meðlagið með efnamönnum, þá verður líka að útvega þeim aukin hlunnindi. En mergurinn málsins er, að sem flestir sjúklingar sæki hælið, og þessvegna má ekki íþyngja fátæklingum. Það væri auðvitað ágætt, ef hægt væri að koma upp sjúkrasjóðum, en tilraunir í þá átt, hafa gengið heldur örðugt.