11.08.1914
Efri deild: 37. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í B-deild Alþingistíðinda. (1642)

83. mál, styrkur fyrir Vífilsstaði

Kristinn Daníelsson:

Það er þegar búið að bera það til baka, að meðgjöfin með sjúklingunum á Vífilsstöðum sje lægri en á öðrum sjúkrahúsum á landinu. Jeg vil benda á, að meðgjöfin í Landakoti er eins og á Vífilsstöðum. Og eins og sagt hefir verið, er læknishjálpin á öðrum sjúkrahúsum venjulega aðeins um stuttan tíma, í samanburði við þann tíma, sem sjúklingar verða að dvelja á Vífilsstöðum. Það var sagt, að hjer væri verið að gjöra landssjóð að fátækrasjóði, en það ætti hann ekki að vera. En að mínu áliti, á landssjóður að halda hendi sinni yfir líknarstofnunum landsins og reyna að fyrirbyggja þá þjóðarhættu, sem stafar af þessum hættulega sjúkdómi, sem hjer er um að ræða, berklaveikinni.

Það hefir verið upplýst, að flestir, sem koma á hælið, eru fátækir. Jeg held, að það sje betra, að þeir fáu ríku njóti þeirra mörgu fátæku, heldur en að þeir fátæku gjaldi hinna ríku. Fjöldi þeirra, sem fara að Vífilsstöðum, eru ekki svo fátækir, að það að öðrum kosti gæti komið til mála, að þeir færu á sveitina. En þeir geta samt ekki farið á Vífilsstaði án þess. Og jeg veit að þeir eru margir, sem mundu heldur deyja drottni sínum en fara á sveitina. Samskot hrökkva ekki til, þó ekki standi á því hjá íslenskri alþýðu, að skjóta saman handa þeim, sem fátækir eru og hjálpar þurfa.