11.08.1914
Efri deild: 38. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í B-deild Alþingistíðinda. (1655)

83. mál, styrkur fyrir Vífilsstaði

Björn Þorláksson:

Jeg skil það svo, að þessi ráðstöfun á rekstri heilsuhælisins sje að eins til bráðabirgða; og ef svo er, þá mun nóg að veita að þessu sinni fje til reksturs hælisins fram til næsta þings, eða má ske öllu heldur, þangað til landið tekur hælið að sjer, því að jeg býst við, að að því reki. Hitt vona jeg að allir sjái af fyrirsögn frv. og efni, að fjárveitingin sje ekki ætluð til að greiða gamlar skuldir, er á hælinu hvíla.

Hv. 6. kgk. (G. B.) lýsti yfir því, að á stjórn heilsuhælisins hvíldi ábyrgð fyrir hælið, á samtals 9000 kr. Jeg geng að því vísu, að þetta muni vera í víxlum í bankanum. Og jeg hefi grun um, eða jafnvel fulla vissu fyrir því, að ekki muni verða gengið hart að mönnum um greiðslu þessara skulda, eins og nú árar, því fremur sem búast má við, að þessu máli verði ráðið til lykta á næsta þingi á þann hátt, að landssjóður taki hælið að sjer. Það er því engin hætta, þótt lánið standi til næsta þings. Enda hefir landssjóður mjer vitanlega tekið ábyrgð á lánum hælisins.