10.08.1914
Efri deild: 36. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í B-deild Alþingistíðinda. (1660)

82. mál, listaverk Einars Jónssonar

Steingrímur Jónsson:

Jeg vil vekja athygli á því, að í þessu frv. er ekki gjört ráð fyrir, hvað þessi fyrirhugaði flutningur og geymsla á verkum Einars Jónssonar muni kosta. Það er með öðrum orðum ótakmörkuð upphæð, sem stjórnin má verja til haus. Þótt hún vildi verja eins miklu fje til þess og Danir vörðu fyrir 70 árum til að flytja verk Thorvaldsens frá Róm, þá er henni það ekki óheimilt eftir frv.

Annars veit jeg ekki til, að neinar upplýsingar liggi fyrir þinginu um það, hve mikið listagildi þessi verk hafa. Jeg hefi sjeð Ingólfsmyndina og álít að hún sje listaverk, þótt gallar sjeu á. Og ef landið á að flytja hana upp og geyma hana, svo að skammlaust sje, svo að það verði okkur ekki til eins mikillar eða meiri skammar en Útilegumaðurinn, hygg jeg að það muni kosta ærið fje. Það er ekki hægt að hola henni niður í einhvern skúr.

Það hafa engin gögn verið lögð fram, svo jeg hafi orðið var við, er sýni að þessi verk sjeu þess verð, að þeim sje sá mikli sómi sýndur, er frv. fer fram á. Jeg veit ekki hvort það er gott fyrir sjálf listaverkin, að þau sjeu flutt til landsins. Jeg tel því ekki viturlegt að samþykkja frv. að órannsökuðu máli.