11.08.1914
Efri deild: 38. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í B-deild Alþingistíðinda. (1686)

111. mál, strandferðir

Jósef Björnsson:

Það frumvarp, sem hjer liggur fyrir, er flutt af samvinnunefndinni í strandferðamálinu. Ástæðan til þess að það er fram komið er sú, að skip þau, er höfð verða til strandferðanna, verða töluvert dýrari en gjört var ráð fyrir á seinasta þingi. Þá var gjört ráð fyrir, að þau myndu kosta um 400 þús. kr. En nú er áætlað, að þau kosti um 500 þús. kr., minst 490 þús., kr. Nú hefir stjórn eimskipafjelagsins tjáð nefndinni í strandferðamálinu, að hún sæi sjer ekki fært að útvega þessi góðu skip, nema landssjóður tæki frekari hluti í fjelaginu en hann hefir nú gjört. Það er ekki að eins verðhækkun á skipum, sem er þessu valdandi, heldur líka, að stjórninni hepnaðist ekki að fá eins hátt lán gegn fyrsta veðrjetti í skipunum eins og við var búist. Hún stendur því ver að vígi til að kaupa dýrari skip.

Samvinnunefndinni um strandferðir þótti því ekki nema eðlilegt, er stjórn eimskipafjelagsins fór fram á aukna hluttekning af landssjóðs hálfu. Til þess að verða við þessari málaleitun er frumvarpið fram komið. Fyrsta breytingin, sem frumvarpið gjörir á lögum þeim, er þingið í fyrra samþykti um hluttöku af landssjóðs hálfu, er sú, að 400 þús. kr. í 1. gr. laganna verði breytt í 500 þús. kr. Í samræmi við það er önnur breytingin, en það er breyting á 5. gr. laganna, og er lagt til að landssjóður hafi leyfi til að taka 500 þús. kr. lán í stað 450 þús. kr.

Jeg vona, að háttv. deild sjái nauðsynina á að samþykkja frumvarpið, og gefi því góðan byr.