11.08.1914
Efri deild: 38. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í B-deild Alþingistíðinda. (1696)

114. mál, atkvæðagreiðsla við alþingiskosningar

Sigurður Stefánsson:

Við vorum að fá þetta frumvarp frá Nd. núna í augnablikinu. Það er einn hluti af frumvarpi stjórnarinnar um kosningar til Alþingis, sem hún lagði fyrir Nd. í þingbyrjun, og hefir Nd. þóknast að taka þetta atriði út úr frumvarpi stjórnarinnar. Maður heyrir sagt að þetta stafi af því, að neðri deild hafi viljað að þetta mál næði fram að ganga, hvernig sem færi um stjórnarskrána á þessu þingi, en atferli þeirrar deildar í þessu máli, virðist ekki benda til þess, að hún hafi ætlast til að málið gengi fram á þessu þingi, þar sem vjer fáum frumvarpið fyrst til íhugunar síðasta lögmæltan þingdag. Jeg skil það ekki, að menn þykjast vilja flýta málunum, en fara þó svo að ráði sínu, að málið getur með engu móti gengið fram á þessu þingi, ef efri deild vill gæta skyldu sinnar og athuga málið, svo sem henni ber að gjöra. Jeg er ekki svo skarpur löggjafi, að jeg geti athugað þetta nýmæli, þó jeg sæti yfir því í alla nótt, svo vandlega, að jeg gæti greitt atkvæði um það, nema þá undir því skilorði, að því verði breytt aftur á næsta þingi, svo sem nú er orðin tíska Það er hrein óhæfa, að merkustu lögin, sem þingið hefir haft til meðferðar, skuli ekki koma, til efri deildar fyr er. að þinglausnum, og jeg get ekki sjeð, að deildin geti rjettlætt það, að samþykkja þetta frumvarp á einum degi við 3. umr.

Jeg álít þetta frumvarp mikla rjettarbót, og get því ekki lagt til að það verði felt, en vil gjöra það að tillögu minni, að því verði vísað til nefndarinnar í kosningalagamálinu.