13.08.1914
Efri deild: 42. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í B-deild Alþingistíðinda. (1706)

128. mál, siglingalög

Karl Einarsson:

Eiginlega er það okkur að kenna, að þetta frv. er hjer á ferðinni. Þetta er sjálfsögð breyting, en hvort hún er alveg nauðsynleg á þessu þingi, skal jeg ekki segja. Breytingin liggur að eins í því, að í 11. gr. siglingalaganna frá 22. nóv. 1913 komi í stað orðanna : „Nú missir skip rjett til að sigla undir dönsku flaggi“: Nú missir skip rjett til að sigla undir því flaggi, er íslenskum skipum er lögmælt.

Þessi breyting er eins nauðsynleg eins og í skrásetningarlögunum, og þar sem nú á að lögleiða íslenskan fána á vissu sviði, tel jeg þetta nauðsynlegt.