10.07.1914
Efri deild: 5. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í B-deild Alþingistíðinda. (1714)

15. mál, sveitarstjórnarlög

Flutningsm. (Magnús Pjetursson):

Jeg verð fyrst að geta þess, að það er ekki tilgangur minn að gjöra eins mikinn usla í 66. gr. sveitarstjórnarlaganna eins og frv. þetta bendir til. Það er einungis fyrri málsgrein lagagreinar þessarar, sem jeg óska að breytist. Tilgangur minn með frv. er ekki annar en sá, að fá numin úr 66. gr. sveitarstjórnarlaganna þessi orð : „Ef atkvæði eru jöfn, ræður atkvæði oddvita“. Ástæðan til þessa er fyrst og fremst sú, að þetta ákvæði hefir verið skilið á tvo vegu, bæði af löglærðum og ólöglærðum. Sumir sýslumenn og aðrir lögfræðingar hafa skilið það þannig, að sýslumaður hafi ekki atkvæðisrjett, nema þegar atkvæði hreppsfulltrúanna eru jöfn. Með öðrum orðum, að sýslumaður hafi einungis úrskurðaratkvæði á sýslunefndarfundum. Hin skýringin er sú, að sýslumaður hafi fyrst og fremst atkvæðisrjett sem aðrir sýslunefndarmenn, eg ef atkvæði eru jöfn, að hans atkvæði meðtöldu, þá hafi hann síðan einnig úrskurðaratkvæði. Eftir þeim skilningi getur oddviti sýslunefndar haft tvöfalt atkvæði. Nú hefir stjórnarráðið með úrskurði dags. 21. mars þ. á., staðfest þennan síðari skilning á sveitarstjórnarlögunum. Sýslumaður fær þannig tvöfalt atkvæði. Þetta tel jeg óheppilegt og ekki rjettlátt. Það má gjöra ráð fyrir að sýslunefnd sje venjulega skipuð færustu mönnum sýslunnar, og það er ekki ástæða til að ætla að sýslumenn yfirleitt hafi þeim mun betur vit á málum sýslunnar, að rjett sje þess vegna að gjöra þá tvígilda á við fulltrúa hreppanna. Hagsmunir hreppanna geta og illa rekist á. Er það þá ekki alveg óhugsandi, að sýslumaður hefði tilhneiging til að fylgja að málum þeirri sveitinni, er hann býr i, og gæti þá sá hreppur þannig öðlast 3 atkv.

Það getur verið, að sumum sýslumönnum þyki þetta hart og finnist það rýra vald sitt, en þar sem þeir eftir sem áður samkv. áður nefndum úrskurði hafa atkv. til; jafns við fulltrúa hreppanna, þá álít jeg það sannarlega fullmikið. Því eftirlitsvald hafa þeir hvort sem er nægilegt, samkv. 81. gr., svo óþarft virðist þess vegna að auka valdssvið þeirra.

Af því að jeg leyfi mjer að stinga upp á 3 manna nefnd að þessari umr. lokinni, þá ætla jeg ekki að fjölyrða frekar um þetta að sinni, en vona að hv. deild sýni frv. þann velvilja að leyfa því fram að ganga.