24.07.1914
Efri deild: 17. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í B-deild Alþingistíðinda. (1718)

15. mál, sveitarstjórnarlög

Steingrímur Jónsson:

Eins og nefndarálitið ber með sjer, er jeg háttv. meðnefndarmönnum mínum að öllu leyti samdóma að því er snertir hið upprunalega frumvarp. En mig greinir á við þá um breytingartillögur nefndarinnar við 36. og 37. grein sveitarstjórnarlaganna frá 1905. Eins og háttv. deildarmenn vita, er rjetturinn til þess að leggja á aukaútsvar yfirleitt bundinn við heimilisfestu innan þess hrepps, þar sem útsvarið er lagt á. Þetta er hið almenna „princip“ laganna, og jeg álít, að í núgildandi sveitarstjórnarlögum hafi verið gengið á fremsta hlunn með arð víkja frá þessu „principi“. Við verðum að gæta þess, að þegar lagt er hátt útsvar á mann annarsstaðar en þar, sem hann á heima, þá verður útsvar hans til þess hrepps, þar sem hann á heimili og rekur aðalatvinnu sina, að sama skapi minna. En þar mundi hann falla til sveitar, ef til þess kæmi, og þar er hann orsök í ýmsum kostnaði, svo sanngjarnt er að sá hreppur njóti útsvars hans til fátækra og annara sveitarþarfa fremur öðrum hreppum. Mjer finst, ef atvinnan er svo veruleg, að hún nái yfir mánuði, þá sje rjett að leggja útsvar á manninn, en annars ekki. Sje tíminn styttri, finst mjer að það sje að taka frá sveitarfjelagi, þar sem hann á heima og hefir konu sina og börn og mundi falla til sveitar, ef til kæmi, það sem því ber að rjettu lagi.

Að því er snertir 2. gr. í frumv. nefndarinnar, þá get jeg felt mig við þá breytingu, sem þar er farið fram á, að gjörð sje á núgildandi sveitarstjórnarlögum. Að vísu hefði jeg helst kosið að hvorki 36. nje 37. gr. sv.stj.l. hefði verið breytt að þessu sinni. En úr því farið er að breyta þessum greinum, þá get jeg ekki greitt atkvæði á móti því, þar eð jeg álít breytingar þær, sem þar er farið fram á, rjettar og sanngjarnar.

Viðvíkjandi því, sem háttv. þingm. Ísfirðinga (S.St.), sagði, þá vil jeg taka það fram, að jeg álít ekki rjett að leiða það í lög að leggja megi útsvar á saltafhendingu, því að hún er einmitt til hagsmuna fyrir það sveitarfjelag, sem hún fer fram í og bætir að nokkru úr samgönguleysinu. Jeg held því, að það væri rangt og jafnvel háskalegt að leggja útsvar á slíkan kaupskap. Öðru máli er að gegna um fiskkaup, enda held jeg að þau mundu falla undir orðið „kaupskapur“, svo að eigi þurfi að breyta frumv. til þess að það nái til þeirra.