24.07.1914
Efri deild: 17. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í B-deild Alþingistíðinda. (1720)

15. mál, sveitarstjórnarlög

Framsögum. (Kristinn Daníelsson) :

Jeg er þakklátur háttv. þm. Ísfjk. (S. St.) fyrir góðar undirtektir hans undir þetta mál. Hann mintist á saltafhendingu kaupmanna í verstöðum. Jeg hafði einmitt það atriði í huga, því að jeg þekki einmitt eitt tilfelli, að reynt hefir verið að leggja aukaútsvar á þá kaupsýslan, en svo fór, að. sveitarstjórnin varð að hætta við þá tilraun. En jeg er að vona, að orðið „kaupskapur“, sem notað er í annari málsgrein 1. gr., geti náð yfir þenna atvinnurekstur. Stundum fer þessi saltafhending fram að eins um nokkrar vikur, en stundum er um verulega kauphöndlan að ræða. Og þess eru dæmin, að saltið hefir verið selt svo dýrt, að öll sanngirni hefði mælt með, að hreppurinn legði nokkur gjöld á seljandann.

Mótbárur þær, sem hv. 3. kgk. (Stgr. J.) kom fram með á móti frumvarpinu, voru alls ekki sterkari en jeg hafði búist við. Hann mintist á, að það væri meginreglan, að útsvarsskyldan væri bundin við heimilisfestu. En sú regla hefir þó frá upphafi aldrei verið undantekningarlaus, enda mun það og hvergi siður í öðrum löndum, að menn í viðlíka tilfellum geti skotið sjer undan gjöldum, ef um verulega atvinnu er að ræða.

Jeg hlýt því að halda því fram, að þetta frumvarp fari ekki lengra en andi sveitarstjórnarlaganna heimilar.

Háttv. umboðsmaður ráðherra (Kl. J.) andaði einna kaldast að frv. Hann sagðist þó hafa búist við því, og sýnir það, að þá hefir legið í loftinu, að slíka lagabreyting þyrfti að gjöra.

Hann ljet í ljós hræðslu um það, að hjer væri löggjöfin komin inn á braut, sem að síðustu ef til vildi gæti leitt til þess, að takmarkið yrði fært niður í 1 dag: Jeg skal játa, að mjer þætti fjórar vikur hæfilegt tímatakmark, en jeg þorði ekki að koma fram með tillögu í þá átt, bjóst við að hún fengi. engan byr. Jeg get ekki betur sjeð en að það sje í fullu samræmi við anda sveitarstjórnarlaganna, að láta þá gjalda í sveitarsjóð, sem hafa hagnað af atvinnu innan hreppsins. Og þó að benda megi á, að hreppsbúar hafi líka hag af þeim atvinnurekstri, þá getur það vitanlega ekki losað nokkurn mann við gjaldskyldu til sveitarfjelagsins. Og stundum gjöra þessir utansveitaratvinnurekendur stóran skaða. Mjer er að minsta kosti kunnugt um, að mjög er kvartað undan mótorbátastöppunni suður í Sandgerði. Þeim þykir orðið fullþröngt á fiskimiðunum þar syðra, og vita ekki til að þeir hafi neitt gagn af mótorbátaútgjörð utansveitarmanna. Þá má heldur segja, að hreppsbúar hafi gagn af lifrar- og saltkaupmönnum.

Jeg er sammála því, sem háttv, umboðsmaður ráðherra (Kl. J.) tók fram um fátækratíundina. En jeg býst við að hægt verði að leiðrjetta það atriði við 3. umr., því að þá verður sjálfsagt búið að samþykkja frumvarpið um afnám fátækratíundar.