10.07.1914
Efri deild: 5. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í B-deild Alþingistíðinda. (1727)

23. mál, tollalög

Júlíus Havsteen:

Jeg gæti vel fallið frá orðinu, því að hæstv. ráðherra hefir tekið flest það fram, sem jeg ætlaði að segja. En úr því jeg er staðinn upp, vil jeg með örfáum orðum minnast á það, að þessi ákvæði, sem hjer er farið fram á að leiða í lög, eru óhæfilega ströng.

Maður getur hugsað sjer, að ef einhverjum kaupmanni hefði orðið á að segja ekki alveg rjett frá tollskyldum vörum, sem hann hefði fengið, þá gæti hann sloppið með 10 króna sekt, en jafnframt yrði hann að missa algjörlega atvinnu sína.

Það gæti verið að fátækum manni með fjölskyldu sína yrði þannig varpað út á klakann fyrir mjög litla yfirsjón, og það er óhæfilegt.

Það er yfir höfuð undarlegt, að hegning við lögreglubrotum er nú í seinni tíð höfð strangari en hegning gegn brotum á hinum almennu hegningarlögum, sbr. lög um skilorðsbundna hegningardóma frá 16. nóv. 1907. Samkvæmt þeim geta þjófar vel sloppið hjá allri hegningu, en fyrir lög reglubrot fá menn svo svæsnar sektaupphæðir, að annað liggur ekki fyrir en afplánun sektanna eða fangelsi um langan tíma. Vil jeg í þessu efni sjerstaklega benda til bannlaganna.

Vona jeg að nefnd sú, sem væntanlega verður skipuð í þetta mál, vilji athuga þetta.