10.07.1914
Efri deild: 5. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í B-deild Alþingistíðinda. (1728)

23. mál, tollalög

Flutningsm. (Sigurður Stefánsson) :

Það er að vísu rjett athugað hjá hæstv. ráðherra, að kaupmenn verða harðara úti fyrir tollsvik, ef frumvarp þetta verður að lögum, en þeir menn, sem ekki eru kaupmenn og svíkja toll; en það liggur í hlutarins eðli, að ekki er hægt að svifta þá verslunarleyfi, sem ekkert verslunarleyfi hafa, sektirnar eru hinar sömu fyrir báða, og að því leyti eru þeir jafnir fyrir lögunum.

Háttv. 1. kgk. (Júl. H.) þótti það hart, að þyngri hegning væri löð við lögreglubrot, en brot gegn hegningarlögunum. En hjer er því naumast til að dreifa.

Æru og mannorðsmissir er þó óneitananlega þyngsta og tilfinnanlegasta hegning, sem nokkur maður getur orðið fyrir, og þá hegning getur maður bakað sjer fyrir stuld, þótt ekki sje nema á einum málsverði, þótt í sárri hungursneyð sje tekinn, þar sem þeir herrar, sem með tollsvikum stela hundruðum og jafnvel þúsundum króna frá þjóðfjelaginu, sleppa með litlum sektum og vilja láta telja sig, og eru enda taldir, velmetnir heiðursmenn eftir sem áður.