18.07.1914
Efri deild: 12. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í B-deild Alþingistíðinda. (1772)

71. mál, stofnun kennarastóls í klassískum fræðum

Guðmundur Björnsson :

Jeg heyri menn tala um, að þetta sje nytsemdarmál, þó að það sje ekki stórmál, — að það sje sjálfsagt að samþykkja þetta frv., bæði vegna þess, að það sje þarflegt og vegna þess, að það hafi engan eða lítinn kostnað í för með sjer. Jeg get nú ekki verið þessu samdóma; jeg lít svo á, að hjer sje stórmál á ferðinni. Jeg var einn af þeim mönnum, sem vann að því að koma háskólanum á laggirnar; jeg átti þátt í löggjöfinni um stofnun hans og starfsvið, og fjekk því tækifæri til þess að hugsa háskólamálið rækilega.

Það, sem menn í upphafi urðu að gjöra sjer ljóst, var þetta, í hvaða átt Háskólinn ætti að stefna. Upphaflega var það að eins tilgangurinn að steypa saman þessum þremur embættismannaskólum, sem áður voru til. En þó varð það ofan á, að þar að auki var bætt við kenslu í íslenskum fræðum og heimspekin greind frá guðfræðinni. Aðrar nýjungar voru ekki gjörðar. — En þeir, sem nokkuð hugsuðu fram í tímann, voru að bollaleggja hverjum námsgreinum ætti að bæta við næst. Um það voru að vísu skiftar skoðanir. En það vil jeg segja, að það gengur óhæfu næst, að Alþingi fari að skifta sjer af þessu máli, án þess að það hafi áður verið rækilega íhugað, hvað Háskólann vanhagar mest um. Er það gríska og latína? Eða eru ef til vill aðrar mentir þarflegri og notadrýgri ? Þetta vil jeg biðja nefnd þá, er væntanlega verður skipuð, að íhuga vandlega. Vjer verðum enn fremur að hafa það hugfast í þessu máli, að við getum ekki sökum efnaskorts fengið alt það, sem við óskum. Vjer getum því miður ekki komið oss upp svo fjölskrúðugum háskóla sem stórþjóðirnar. Og einmitt þess vegna verðum við að hugsa vandlega um hvert spor, sem við stígum í þessu máli, — og þess vegna er hjer um stórmál að ræða. Hjer er að velja um tvær stefnur. Eigum vjer að hneigjast að málfræðisvísindunum og bæta við latínu og grísku, og þar á ofan svo ef til vill arabísku og sanskrit? Eða eigum vjer að taka upp nytsemdarstefnuna og reyna að efla náttúruvísindin og reynsluvísindin, svo sem fremst er kostur? Í því sambandi vil jeg að eins leyfa mjer að benda á það eitt, að flest ung og upprennandi þjóðfjelög leggja aðaláhersluna á hin nýju vísindi.

Áður en jeg sest niður, vil jeg taka það fram, að mjer finst hörmung að hlusta á, að latína og gríska sjeu taldar fremstar allra tungna. Það er skömm, að nokkur maður, sem íslenskt mál mælir, skuli láta sjer þau orð um munn fara.