28.07.1914
Efri deild: 20. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í B-deild Alþingistíðinda. (1776)

71. mál, stofnun kennarastóls í klassískum fræðum

Karl Einarsson ; Jeg ætla mjer ekki þá dul, að svara orði til orðs hinni löngu og snjöllu ræðu hv. 6. kgk. (G. B.); það kendi svo margra grasa í henni, að það mætti æra óstöðugan að tína þau öll upp. Það kom hvað eftir annað berlega fram, að ræða hv. 6. kgk. (G. B.) bygðist á misskilningi á málinu, og afstöðu vor, stuðningsmanna þess, til þess. Engum flutningsmannanna dylst það, að þörf sje á, að bæta við kenslu í fleiri námsgreinum en þessum við Háskólann. Það má segja, að þar sje íslenskan ein kend eingöngu á vísindalegan hátt. Við kenslu í guðfræði, lögfræði og náttúrufræði gengur mestur tíminn til að undirbúa nemendur undir embættispróf Það dettur víst engum í hug að neita því, að þarflegt væri að kend væri enska, franska, þýska, saga, landafræði, náttúrufræði, og þó sjerstaklega stærðfræði, sem fyrir þá, er hennar hafa full not, er bæði stórmentandi, og lykill að flestum greinum náttúrufræðinnar. Jeg tók það fram við 1. umr. málsins, að latínan hefði fyrst og best skerpt greind mína, og endurtek jeg það nú aftur. Svipað má segja um stærðfræðina, hún er ágætlega fallin til að skerpa dómgreindina og rökrjetta hugsun; en vel að merkja fyrir þá eina, sem fá nokkurn veginn fullan skilning á henni; fyrir hina verður stærðfræðisnámið alt af gagnslítið, og hingað til hefir sú raun á orðið, að þeir hafa verið æðimargir, sem stærðfræðin má heita eins og lokuð bók fyrir, þótt þeir hafi verið að berjast við nám hennar ár eftir ár. Jeg tók það líka fram áður, að líkt mætti segja um íslenskuna sem latínuna, ef hún væri kend á líkan hátt og jafnvel sem latína var kend. En það skortir á að hún sje nógu vel kend og nógu mikil stund lögð á að læra hana; vjer þykjumst kunna hana frá upphafi, og fáum ekki af oss að þreyta glímu við hana á sama hátt og vjer verðum að gjöra við latínuna, ef nokkuð á að ganga með nám hennar.

Háttv. 6. kgk. (G. B.) hjelt því fram, að þetta fag væri valið af handahófi. En það er ekki rjett, því að þetta frumv. er komið fram samkv. ósk frá nefnd, sem kosin var af stúdentafjelaginu, til að athuga þetta mál, og áleit hún að ekki mætti bíða lengur að stofnað væri til kenslu í klassískum fræðum við Háskólann. Hins vegar er ekki hætt við því, að enska, franska, þýska eða náttúruvísindi og önnur slík fræði deyi út og að maður geti ekki fengið nóga hæfa menn til að kenna slík fræði, þegar að því er komið, að hægt er að stofna til kenslu í þeim við Háskólann. En það er viðbúið, að innan skamms verði ekki hægt að fá hæfan mann innlendan, til þess að kenna grísku og latíu við Háskólann, en menn ættu þó að kosta kapps um að fá innlenda menn að Háskólanum. Jeg vil því mótmæla hinni rökstuddu dagskrá og vona að háttv. deild samþ. hana ekki.

Þá spurði háttv. 6. kgk. (G. B.) hver sá maður væri, sem ætti að taka þetta starf að sjer. Þessari spurningu get jeg ekki svarað, af því að jeg er ekki stjórnin og ræð því ekki, hver starfann fær. Því ræður stjórnin auðvitað. En jeg treysti mjer til að nefna nöfn margra manna, sem við eigum enn sem komið er kost á og væru vel hæfir til að taka þetta starf að sjer. Að það stendur í nefndarálitinu að menn muni hætta að sigla til þess að nema þessi fræði, er rjett, og liggur svo í því, að eftir að latínan og grískan varð útlæg úr skólanum, er ekkert fyrir slíka menn að gjöra hjer á landi, og munu því engir fara að kosta til að nema þessi fræði ytra.

Að öðru leyti skal jeg ekki svara frekara hinni löngu ræðu háttv. 6. kgk. (G. B.) með því að jeg býst við að framsögum. muni svara henni rækilega.