28.07.1914
Efri deild: 20. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í B-deild Alþingistíðinda. (1778)

71. mál, stofnun kennarastóls í klassískum fræðum

Björn Þorláksson:

Jeg stend að eins upp til þess að gjöra grein fyrir atkvæði mínu í þessu máli. Jeg býst nú ef til vill við, að menn gjöri ráð fyrir því, að jeg muni vera þessu máli fylgjandi, vegna þess að jeg er gamall maður og hefi lært þessi mál í æsku. En þótt svo sje get jeg ekki ljeð þessu máli fylgi mitt.

Mjer finst að umræðurnar í dag hafi snúist langt frá því, sem er mergurinn málsins, og virðist þeir, sem vilja auka þekkingu stúdenta í klassískum fræðum, hafi farið skakka leið. Þeir hefðu átt að bera fram tillögu um að auka kenslu í þeim fræðum í Mentaskólanum sjálfum. En jeg er hræddur um, að þetta frumvarp beri ekki neina ávexti, ef kenslan í gömlu málunum þar verður ekki aukin. Að tala um að auka kenslu í þeim málum við þann skóla, liggur fyrir utan umræðurnar, og ætla jeg því að sleppa því að þessu sinni. Um frumvarpið sjálft, sem hjer liggur fyrir, get jeg verið fáorður, en jeg verð þó að taka fram, að jeg hefi heyrt að prófessor Ólsen hafi verið á móti þessu brjefi, sem kemur frá Háskólanum, og hafi haldið því fram, að það ætti að breyta fyrirkomulaginu við Mentaskólann og taka grísku þar upp aftur, áður en farið verði að kenna fornmálin við Háskólann.

Jeg vil því næst athuga það, sem mjer sýnist vera mergurinn málsins fyrir þeim, sem bera frumvarp þetta fram. Mjer virðist að þeir haldi því fram, að tvenskonar vandkvæði leiddi af því, ef þessi kennarastóll væri eigi settur upp. Í fyrsta lagi, að ekki yrði hægt að fá hæfa menn til þess að kenna latínu við Mentaskólann. Í öðru lagi að guðfræðiskensla við Háskólann yrði ófullkomin, ef gríska væri ekki kend.

Jeg vil nú leyfa mjer að athuga þessar tvær ástæður fyrir frumvarpinu. Það er vitanlegt, að kennararnir við Mentaskólann hafa mestmegnis sótt lærdóm sinn til Kaupmannahafnarháskóla, og þeir sem hafa kent latínu við Mentaskólann, hafa aukið þekkingu sína í þeirri grein við háskólann danska.

Mjer finst að þessir menn geti, eins hjer eftir sem hingað til, siglt til Kaupmannahafnar, og að eigi sje ástæða til að stofna sjerstakan kennarastól hjer fyrir þá. Jeg vil að eins minnast á, að jeg hefi heyrt það haft á móti þessu, að Garðstyrkurinn muni bráðum verða tekinn af íslenskum stúdentum. Þetta getur vel verið rjett, en á meðan við eigum kost á þeim styrk, finst mjer engin ástæða til að við hlífumst við að nota hann; mjer finst við geta. notað hann með bestu samvisku. Jeg hygg að ef þessir fáu menn, sem þarf til þess að kenna latínu við Mentaskólann, ættu að fá kenslu hjer, þá mundi sú kensla verða nokkuð dýr landinu, þar sem eigi þyrfti að búast við, að Háskólinn hefði nema. einn eða tvo slíka nemendur í einu.

Það var sagt áðan, að það væri mikill hugur í stúdentum við Háskólann, sjerstaklega þeim, sem legðu stund á frönsku, að læra meira í latínu. Mig furðar á, að nokkur maður skuli vilja fara slíka krókaleið. Jeg hef sjálfur lært dálítið í frönsku og kemur mjer auðvitað ekki til hugar að, neita, að maður standi betur að vígi til þess að læra það mál, ef maður hefir numið latínu, en það nær engri átt, að maður þurfi fyrst að læra latínu, til þess að komast niður í frönsku. Úr því að jeg er að tala um frönskuna, get jeg um leið minst á það, sem háttv. framsm. (S. St.) sagði um forntungnanám Frakka. Hann vill sýnilega, að vjer færum í því efni að dæmum þeirra. En það stendur alt öðruvísi á fyrir þeim en oss. Latínan er móðir frönskunnar og því er ekki að kynja, þótt Frakkar láti kenna hana í skólum sínum.

Jeg vil minnast lítið eitt á grískuna. Grískukensla er nú afnumin í Mentaskólanum, og á það að vera sjerstaklega bagalegt fyrir þá stúdenta, sem leggja stund á. guðfræði. Þó hef jeg ekki heyrt, að piltar, sem stunda guðfræði við Háskólann,. hafi óskað kenslu í grísku, og hefðu þeir þó sjálfsagt getað átt kost á því að fá hana, þar sem allir guðfræðiskennararnir hafa lært grísku. Guðfræðisnemendur Háskólans kunna því nú ekki eitt orð í grísku. Og hver hefir svo reynslan orðið? Jeg veit ekki betur en að kenslan hafi gengið prýðilega vel; að minsta kosti veit jeg ekki til, að nokkur, hvorki kennari nje lærisveinn, hafi kvartað. Jeg er þess vegna hræddur um, að guðfræðingarnir mundu ekki nota sjer grískukensluna, þó að þessi kennarastóll væri reistur. Þeir mundu kann ske byrja á grískunámi, rjett af forvitni, en mundu svo hætta, þegar þeir kæmust að raun um, hvað grískan er erfið viðfangs. Jeg las grísku undir skóla og í skóla í 5 ár, eins og lög gjörðu ráð fyrir, og síðan á prestaskólanum nokkuð, og eftir að jeg varð prestur hefi jeg nokkrum sinnum lesið Nýja-Testamentið á frummálinu. Jeg þykist því hafa nokkra reynslu um það, hvað grískan er erfið. Það þarf meira en litla kunnáttu í þeirri tungu til þess að geta lesið Nýja Testamentið á frummálinu sjer til gagns, og satt að segja er jeg hræddur um, að Nýja Testamentið á grísku verði prestum landsins lokuð bók, þó að þeir hefðu einhverja tilsögn í grísku á Háskólanum um þriggja ára tíma. Enda er það mín skoðun, að ekki þurfi neina grískukunnáttu til þess að vera góður prestur; margir hinna frægustu prjedikara hafa ekki þekt einn staf í þeirri tungu.

Það er því mín trú, að þessi kennarastóll mundi ekki koma að neinu gagni. Frumvarp þetta mun vera flutt inn á þing í þeim tilgangi, að stíga spor í þá átt, að endurreisa klassísk fræði í landinu, en hjer hefir öfug leið verið farin. Kennarastóllinn yrði engum til gagns nema þeim, sem fengi að hvíla lúin bein í honum. — Jeg minnist þess nú, að á fyrsta þingi sem jeg sat, 1909, voru háskólalögin samþykt. Þá fanst mjer meira hugsað um prófessorana og dósentana heldur en um lærisveinana. Og hið sama virðist mjer vera uppi á teningnum enn í þessu frumvarpi. En auðvitað get jeg játað það, að Háskólanum kynni að vera „stáss“ að þessari viðbót, sjerstaklega í augum þeirra, sem fremur líta á tölu kennaranna en lærisveinanna. En höfum við ráð á slíku „stássi“? Það kostar þó um 3000 kr. á ári, og er jeg sannfærður um, að því fje mætti verja miklu betur á annan hátt, annað hvort í þarfir Háskólans eða til einhvers annars. Ef jeg skil þetta mál rjett, þá er með þessu frumvarpi stefnt í þá átt, að sýnast fremur en vera. En slík tildurpólitík er alt af ósæmileg. — Jeg mun því greiða atkvæði á móti því, að þetta frumvarp gangi til 3. umræðu, en hins vegar mun jeg greiða atkvæði með hinni rökstuddu dagskrá, sem fram hefir komið, því að hún miðar að því, að málið verði nákvæmlega rannsakað og skýrt fyrir þingi og þjóð.