29.07.1914
Neðri deild: 24. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í B-deild Alþingistíðinda. (178)

78. mál, sjóvátrygging

Hannes Hafstein :

Þetta frumv. er Stjórnarfrumvarp og er nú gengið í gegnum hreinsunareldinn í háttv. Ed. Það er kafli úr dönsku sjólögunum og alveg í samræmi við sjólög Svía og Norðmanna. Þessi lög eru öll samin af bezt færum mönnum Norðurlanda í þeirri grein. Og þegar stjórnin bjóst til að leggja sjólagafrv. fyrir þingið 1911, þá fekk hún einn af ritfærustu og orðhögustu mönnum hér til þess að leggja dönsku lögin út, þar með einnig þennan kafla, er síðar var tekinn út úr. Þýðingin hefir síðan, er til kom að leggja kaflann sem sérstakt frumv. fyrir þingið, verið vandlega yfirskoðuð, meðal annars af kennaranum í sjórétti við háskólann, er sá um samræmi við önnur íslenzk lög. Nú hefi eg heyrt sagt, að einn af þeim háttv. herrum í Ed., sem um málið hefir rætt þar, hafi uppkveðið þann dóm, að frumv. sé alt einn grautur af hugsunarvillum og málvillum! Og þótt háttv. Ed. kunni að hafa bætt úr þessum sorglegu göllum að einhverju leyti, þá þætti mér vissara, að hér yrði einnig skipuð nefnd til þess að athuga það, á hve miklum rökum þessi dómur um frumvarpið er bygður, svo og umbætur háttv. Ed., og leyfi eg mér þá að stinga upp á 5 manna nefnd.