08.08.1914
Efri deild: 32. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í B-deild Alþingistíðinda. (1787)

71. mál, stofnun kennarastóls í klassískum fræðum

Karl Einarsson:

Jeg ætla ekki að vera langorður. En jeg verð að lýsa því yfir, að mig furðar stórlega á meðnefndarmönnum mínum. Þetta er nú í annað sinn, sem rökstudd dagskrá kemur fram í þessu máli, sama efnis. Hvort orðalag hennar er svo samhljóða hinni fyrri, að þess vegna sje rjett að vísa henni frá, læt jeg ósagt; jeg ætla forseta að úrskurða um það. Jeg skal játa það, að jeg get fallist á margt af því, sem háttv. 5. kgk. (B. Þ.) sagði um skólamálin. En við getum ekki á þessu augnabliki kipt þeim í það horf, sem við helst vildum. Reglugjörð Mentaskólans er gjörð eftir því, sem mentamenn hjer álíta heppilegast, og jeg býst ekki við að þeir hafi breytt skoðun sinni á þessu máli. Gangurinn er alstaðar sá, að í öllum hinum lægri mentastofnunum er lögð meiri og meiri áhersla á hin praktísku fræði og við getum því ekki búist við að farið verði að gjöra Mentaskólann okkar aftur að latínuskóla. Meining okkar með frumvarpinu er sú, að sjá um að latína og gríska deyi ekki algjörlega út á þessu landi.

Jeg sje ekki minstu ástæðu til að setja þetta mál í samband við Evrópustríð; það er auðvitað, að ef harðnar í búi og þröng. verður um fje í landssjóði, þá má treysta landsstjórninni til þess, að hún setji ekki þetta embætti á stofn fyr en um hægist aftur; það er ekki heldur neitt ákvæði um það í lögunum, svo að hún getur þess vegna dregið það.

Jeg tel mig með þessu hafa sýnt hve ástæðulaust það er fyrst hv. þm. Barðstr. (H. Kr.) að hafa breytt skoðun sinni og snúast nú móti frv. af styrjaldarhræðslu.

Hjer er ekki farið fram á nein fjárútlát úr landssjóði í bráð eða meðan að þrengir.

Jeg vona að hv. d. gjöri ekki þessu máli þá vansæmd og sjálfri sjer þann vansa, að samþykkja rökstudda dagskrá, þrátt fyrir það þótt hún rjett nýlega hafi felt aðra alveg samskonar dagskrá. Jeg býst ekki við að málið komist gegnum þingið að þessu sinni, en finst það þó sæma betur þessari deild, að lofa því að koma til kasta bv. Nd. og lofa henni að láta uppi álit sitt á því. Hitt væri deildinni til skammar, að samþykkja dagskrána eftir það, sem á undan er gengið.