16.07.1914
Efri deild: 10. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í B-deild Alþingistíðinda. (1809)

56. mál, varnarþing í einkamálum

Framsögum. (Steingrímur Jónsson):

Það er rjett, að stjórnin hefir ekki haldið því fram, að frumvarpið væri að eins bót á gamalt fat, heldur sagt, að mörgum myndi virðast svo sem frumvarpið væri að eins bót á gamalt fat, og jeg ætlaðist til, að orð mín yrðu skilin þannig, að við nefndarmennirnir sjeum meðal þessara mörgu, því við lítum svo á, sem frumvarpið væri að eins bót á gamalt fat. Um þetta er ekki að fást, ef fatið er þess vert, að það sje bætt, og sá sem fatið á, á ekki annara kosta völ en bæta það, þótt ræfill sje. En var stjórnin þannig stödd? Því verður ekki haldið fram, þar sem það stendur í athugasemdunum, að hún. eigi annað frumvarp í skúffunni, sem er eins og hún óskar. Frá nefndarinnar sjónarmiði gat það því eigi verið nein mótspyrna gegn stjórninni, þótt lagt væri til, að málið væri felt, og það því fremur, sem frv. þetta er ekki komið frá stjórninni í fyrstu, heldur frá einum sýslumanni landsins, og það sýslumanni í einni sýslunni, þar sem mikill vafi leikur á, hvernig skifting dómþinghánna eigi að vera. .

Þá spurði hæstv. ráðherra, hví nefndin hefði eigi stungið upp á breytingum. En málið er svo umfangsmikið, að á slíku eru engin tök á aukaþingi. Auk þess álít jeg, að slíkar till. eigi ekki koma að frá nefnd í annari deild þingins, heldur frá stjórninni.

Hvorki mjer nje nefndinni getur verið það nokkurt kappsmál, hvort frumvarpið gengur gegn um deildina eða ekki. Jeg tel engan verulegan skaða orðinn, þótt það verði samþykt. En það er engin þörf á slíku. Ef þetta gamla fat fær nú einhverja bót, getur það orðið til þess, að það verður látið drasla oflengi. En slíkt tel jeg óheppilegt.