23.07.1914
Efri deild: 16. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í B-deild Alþingistíðinda. (1840)

72. mál, hlutafélagsbanki

Karl Einarsson :

Háttv. 3. kgk. (Stgr. J.) hefir haldið alllanga ræðu um þetta mál, en ekki hefir hann lyft Íslandsbanka hátt eða aukið álit hans með henni. Hann heldur því fram, að frumvarpið muni ekki verða að neinu liði, ef brtt. verður samþykt. Hann fullyrðir enn fremur, að ómögulegt muni að selja hlutabrjefin jafnvel fyrir alls ekki neitt. Jeg vona nú, að þetta sje ekki annað en staðhæfing út í loftið. Þá fullyrti hann og, að stórhluthafarnir, Privatbankinn og Centralbankinn mundu nú ekki liggja með nein hluta brjef; þeirra meining hefði að eins verið sú, að komu þeim á markaðinn. Mjer er nú spurnin, hvort þetta er satt. Jeg hygg hitt sannara, að Íslandsbanki sje ekkert annað en deild úr þessum bönkum, og er það opinbert leyndarmál. Hinn háttv. þingmaður sagði enn fremur, að það væri gullforðinn, en ekki hlutafjeð, sem ætti að tryggja seðlana. Jeg sagði það líka við seinustu umræðu, að gullforðinn væri aðaltryggingin, og er auðvitað heppilegast, að hann fari hlutfallslega vaxandi eftir því sem seðlaútgáfan eykst.

Það kom fram í ræðu hins háttv. þingmanns, að hann var hræddur um, , að bankinn kynni að fara að „spekluera“, ef hann fengi mikið fje til umráða. Jeg hefi nú miklu betri trú á bankastjórninni en svo, að mjer detti í hug að gruna hana um slíkt. Hjer bíða mörg þörf og góð fyrirtæki eftir engu öðru en fje, fyrirtæki, sem geta sett nægilega tryggingu fyrir þeim peningum, sem þau þurfa á að halda. Bankanum væri því alveg óþarft þeirra hluta vegna að fara að steypa sjer út í óvissar „spekulatiónir“. — Það gleður mig, að háttv. þingmaður heldur því ekki lengur fram, að það sje sama sem að auka veltufjeð, að auka seðlaútgáfuna. Það sýnir aukinn skilning hans á málinu, að hann hefir gengið úr skugga um, að seðillinn er ekkert annað en ávísun. – Tilvitnun hans til Þjóðbankans danska sannar ekkert. Sá banki er að öllu leyti betur trygður en Íslandsbanki; hefir nú starfað yfir 100 ár og nýtur alstaðar hins mesta trausts. — Út af ummælum hans um sambandið milli hlutafjárins og seðlaútgáfunnar, vil jeg leyfa mjer að benda á, að stofnendur Íslandsbanka voru þeirrar skoðunar að seðlaútgáfan ætti að standa í vissu hlutfalli við hlutafjeð.