03.08.1914
Efri deild: 16. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í B-deild Alþingistíðinda. (1841)

72. mál, hlutafélagsbanki

Steingrímur Jónsson :

Jeg ætla að eins að segja fáein orð. Hinn háttv. þm. Vestm. (K. E.) sagði, að jeg hefði ekki lyft Íslandsbanka eða aukið álit hans með þeim orðum, sem jeg talaði áðan. Það var ekki tilgangur minn, enda væri jeg ekki maður til þess. Hitt var mín meining, að reyna að bæta úr því óhagræði, að bankann vantaði seðla í haust. Og það var almenningshagur en ekki bankans hagur, sem jeg var að hugsa um.

Jeg vil grípa tækifærið til þess að leiðrjetta það mishermi hins háttv. þm. Vestm. (K. E.). að jeg hafi sagt að seðlar væru sama sem veltufje. Það hefi jeg aldrei talað, en hitt hefi jeg sagt, að þeir gætu gjört rýmra um veltufje. — Það gleður mig að háttv. þm. Vestm. (K. E.) hefir svo gott traust á bankanum, að hann óttist ekki að hann hleypi sjer út í varhugaverð fyrirtæki, þó að hann verði neyddur til þess að auka hlutafje sitt. Hjer er þó engin trygging sett gegn því, að hann geti ekki „spekulerað“. Hv. þm. Vestm. (K. E.) hefði átt að sýna bankanum traust sitt á einhvern annan hátt en með þessari brtt., sem ónýtir kjarna frumvarpsins. — Háttv. þm. Vestm. (K. E.) talar jafnan um Privatbankann og Centralbankann eins og eigendur Íslandsbanka, og nefnir þá stórhluthafa í bankanum. Jeg hefi ekki heyrt þetta fyr en nú, af vörum háttv. þm. Vestm. (K. E.) Mjer er að vísu kunnugt, að þessir bankar áttu öðrum fremur þátt í stofnun Íslandsbanka. En þeir munu fyrir löngu hafa selt hlutabrjef sín, að minsta kosti er mjer kunnugt um einn af stofnendum bankans, að hann hafði selt öll sín hlutabrjef 1½ ári eftir að bankinn tók til starfa. Eða hvaðan ættu þau hlutabrjef að hafa komið, sem keypt hafa verið hjer á landi síðan bankinn var stofnaður.

En nú munu um 700,000 kr. í hlutabrjefum vera í höndum íslenskra manna. Þá mætti og benda á það, hvað fá atkvæði eru greidd á aðalfundum bankans hjer í Reykjavík. Það kemur til af því, hvað bankarnir eiga lítið af hlutabrjefum, því að þeir munu vissulega gæta þess, að nota sín atkvæði. Jeg hygg að ástæðulaust sje að fjölyrða frekar um þetta atriði.