11.08.1914
Efri deild: 38. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í B-deild Alþingistíðinda. (1862)

72. mál, hlutafélagsbanki

Steingrímur Jónsson :

Ræða hv. þm. Vestm. (K. E.) sannfærði mig ekki um að ekki gæti stafað fjárhagshætta af því, að fella frv. þetta. Það var ekki heldur von, því hún var samantvinnuð af rangfærslum og útúrsnúningum.

Það er alls ekki það ósamræmi milli þess, sem jeg sagði í sumar um kostnaðinn við að útvega útlenda seðla handa bankanum, og þess, sem jeg sagði nú, eins og hv. þingm. (K. E.) vill láta sýnast. Það má búast við því, að ef seðlaútgáfurjettur Íslandsbanka verður ekki aukinn, þá muni með ári hverju aukast þörfin á útlendum seðlum, og verður það eins og jeg sagði, þegar málið var hjer áður til umræðu, kostnaðarsamt fyrir bankann, að útvega frá útlöndum alla þá seðla, sem þarf til að fullnægja viðskiftaþörfinni. Hins vegar er málinu nú svo komið, að einungis á að veita bankanum heimild til að auka seðlafúlgu sina um hálfa miljón króna, og það með því skilorði, að hann hafi jafnan fyrirliggjandi tryggingarfje, er nemi að minsta kosti 50% af seðlafúlgu þeirri, er í hvert skifti er í umferð fram yfir 2½ miljón króna. Þegar málið var hjer fyrir áður, þá var gjört ráð fyrir að bankinn fengi heimild til að gefa út 700 þús. kr. í seðlum, fram yfir það sem nú er, og þyrfti ekki að hafa fyrirliggjandi meiri málmforða en næmi 37½% af seðlaupphæð þeirri, er í hvert skifti væri úti. Það sjá allir, að hjer er mikil breyting á orðin. Það er jafnvel efamál, hvort það borgar sig ekki eins vel fyrir bankann, að fá útlenda seðla, þegar seðlaskortur er, eins og ganga að frv. eins og það er nú; víst er um það, að mikill verður ekki kostnaðaraukinn. Þetta vona jeg að hv. dm. sjái og skilji, og jafnvel hv. þm. Vestm. (K. E.) líka, þegar hann fer að átta sig betur.

Þá lagði hv. þm. (K. E.) áherslu á að hjá mjer kæmi fram ósamkvæmni og jafnvel ósannsögli, þar sem jeg sagði, að nú ætti bankinn ekki heima nema rúmar 200,000 kr. í seðlum ; þótti honum það koma illa heim við það, sem jeg hafði áður frá skýrt, að um miðjan júlímánuð hefði bankinn átt í umferð rúmlega 1,661,000 kr. Þótti honum ótrúlegt, að svo mikið hefði farið út af seðlum síðan ; enda sagði þm. (K. E.), að frá því hefði verið skýrt í blaði einu, — hann hjelt í Ísafold, — nú fyrir skömmu, að bankinn ætti ekki nema um 1,400,000 kr. í seðlum í umferð. Þetta er hreinasti misskilningur eða misminni, Hvorki Ísafold nje nokkurt annað blað hefir skýrt frá þessu, heldur frá hinu, að hann ætti hjá útlendum bönkum um 1,400,000 kr.

Það vill nú svo vel til, að jeg get fært hv. d. heim sanninn um, að jeg hefi á rjettu máli að standa um það, hvað bankinn eigi úti af seðlum. Jeg hefi þar fyrir mjer skýrslu, sem jeg hefi fengið frá stjórn Íslandsbanka, munnlega að vísu, en jeg veit, að . hún er áreiðanleg. Eftir henni: á bankinn nú seðla í umferð að upphæð rúmar 2,000,000 kr., og auk þess hafa útibúunum nú nýlega verið sendar rúm 200.000 kr. í seðlum til að taka í. umferð, og mun það eflaust ekki ofmikið til þeirra þarfa. Geta nú allir sjeð, að það er rjett hjá mjer, að í bankanum. liggja ekki eftir nema rúmar 200,000 kr. í seðlum.

Jeg nenni ekki að rífast við hv. þm. Vestm. (K. E.) um það, hvort meiri þörf sje á seðlum, þegar ófriðarteppa er eða þegar hún er ekki. Þó vil jeg benda á það, að sú hræðsla og viðskiftateppa, sem ófriði fylgir, er mikil og sú eyðilegging, sem langvinnum ófriði fylgir, er að jafnaði stórkostleg. Í byrjun ófriðarins reyna menn að halda áfram störfum sínum, en. þegar hann hefir lengi staðið, þá fer alt að leggjast í kaldakol, og mönnum á: ófriðarsvæðinu að falla allur ketill í eld. Þegar svo er komið má vera að þörfin. fyrir gjaldeyri minki; en vist er það, að í byrjun ófriðar er hún mikil, enda sjáum vjer, að eitt hið fyrsta, sem aðrar þjóðir gjörðu, þegar ófriðurinn hófst, var að auka seðlaútgáfu hjá sjer. Þetta ætti þó að vera bending í þá átt, að varlegt sje að trúa fullyrðingum hv. þm. Vestm. (K. E.) um að ekki geti komið til mála,. að hjer sje meiri þörf á seðlum ófriðarins vegna en ella. Hv. þm. (K. E.) sagði,. að hinn aukni seðlaútgáfurjettur bankans. mundi ekki verða takmarkaður aftur, þrátt fyrir ákvæði frv., ef hann fengist á annað borð. Það getur verið að svo fari. En illa trúi jeg því, að hv. þm. (K. E.) og skoðanabræður hans í þessu máli, hafi ekki hug og vilja til þess, þegar þeir sjá sjer færi, þrátt fyrir ummæli hv. þm. (K. E.) nú. Jeg hefi aldrei talað um neina ofsókn gegn Íslandsbanka. Það er því hreinn óþarfi fyrir hv. þm. (K. E.) að vera að afsaka sig. Jeg skil annars ekki í, hvað þetta ofsóknatal á að þýða. Það er engu líkara en þeir, sem eru sem kröftulegast að mæla gegn Íslandsbanka, sjeu sjer þess meðvitandi, að framkoma þeirra líkist ofsókn. Eigi að síður virðist ástæðulaust, að vera að koma með afsakanir, meðan enginn ber þeim slíkt á brýn.

Hv. þm. (K. E.) sagði að landsstjórnin gæti gefið út sjerstakan verðmiðil, ef þörf krefði. Jeg er ekki svo fróður, að jeg vilji að svo stöddu segja af eða á um þetta. En það sje jeg, að það er engan veginn hættulaust, að landsstjórnin gangi inn á þá braut, og óvíst hverja þýðingu það mundi hafa fyrir fjárhag landsins á eftir. Það er og auðsjeð, að það er handhægara fyrir landsstjórnina, að bankanum sje heimilað að auka seðlafúlgu sína en að hún þurfi að annast útgáfu nýs gjaldmiðils. Og loks yrði það ei gjört, nema með sjerstökum undantekningarlögum, og ekki nema í mestu vandræði væri komið, því að í raun rjettri væri slíkt brot á einkaleyfi Íslandsbanka, að gefa út seðla. Hv. þm. (K. E.) sagði, að meiningin með brtt., þegar málið var hjer áður til meðferðar, hefði verið sú, að koma ofurlítið meira viti í frv., en ekki til að gjöra það nothæft; ætlaði hann svo hv. Nd. að koma enn meira viti í það. Þetta gleður mig að heyra. Þá hjelt hv. þm. (K. E.) því fram, að hægðarleikur væri fyrir Íslandsbanka, að auka hlutafje sitt. En nú er hann horfinn frá því. Brtt. hans var til að hleypa viti í málið, en eigi til að gjöra frv. nothæft. Þetta er hans eigin játning nú.