11.08.1914
Efri deild: 37. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í B-deild Alþingistíðinda. (1867)

75. mál, sparisjóðir

Framsögum. (Steingrímur Jónsson) :

Eins og hið stutta nefndarálit á þgskj. 456 ber með sjer, þá hefir nefndinni komið saman um að vísa málinu til stjórnarinnar með rökstuddri dagskrá. Ástæður fyrir þessu eru þessar: Nefndinni er það fullljóst, hve þýðingarmikið mál þetta er; hins vegar er það og kunnugt, hve misskiftar hafa verið skoðanir bæði á þinginu í fyrra og eins nú í ár, hvernig málinu yrði heppilegast ráðið til lykta. Frumvarp það, sem stjórnin lagði fyrir þingið í ár, var líkt frumvarpi því, sem efri deild samþykti í fyrra, en sem þó var ágreiningur um. Í hv. Nd. hefir stjórnarfrumvarpið tekið stórkostlegri breytingu, og er lítið annað eftir af því en að fyrirskipuð er skoðun á sparisjóðum landsins. En auk þess, sem fyrirkomulaginu á eftirlitinu með sparisjóðum er gjörbreytt frá því, sem ætlast var til í stj.frv., þá eru ýmsar fleiri breytingar gjörðar, og eru sumar þeirra síst til bóta.

Þegar svona er komið málinu, sá nefndin sjer ekki fært að samþykkja frv. óbreytt; en hins vegar ósennilegt að menn mundu geta orðið sammála um breytingar. Þá er þess og að geta að málið tafðist hjer í deild við það, að einn nefndarmaðurinn var sjúkur um tíma, og það einmitt sá maðurinn, sem einna síst mátti missast, hv. 2. kgk. (E. B.). Þrátt fyrir þetta alt hefði ef til vill verið hægt að fá fram breytingu á frv. hjer í deild nú á síðustu stundu; en þó svo hefði farið, þá var það bersýnilegt, að málið mundi daga uppi í hv. Nd. Nefndin vildi þó ekki skilja svo við málið, að ekki væri nokkuð að gjört; henni er það ljóst, að með ári hverju vex þörfin á tryggilegu eftirliti með sparisjóðunum, því að þeir fjölga og vaxa hröðum fetum eftir því sem viðskifti og velmegun þjóðarinnar eykst. Hættan fyrir sparisjóðina verður alt of mikil, ef haldið er áfram að lifa undir því lagaleysi, sem nú er, og ekkert er að gjört; en af því að engin líkindi eru til, að hægt verði að koma gegnum þingið í ár lögum um: eftirlit með sparisjóðum, leyfir nefndin. sjer að koma með svohljóðandi rökstudda dagskrá, sem jeg bið hæstv. forseta að bera undir atkvæði að lokinni umræðu.

Í trausti þess að stjórnin leggi fyrir næsta reglulegt Alþingi frumvarp til laga um sparisjóði, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá