10.08.1914
Efri deild: 36. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í B-deild Alþingistíðinda. (1886)

31. mál, þingsköp Alþingis

Í fyrra var skipuð nefnd í Nd. í stjórnarskrármálið 5, júlí; úr nefnd kom það þar 19. ágúst; en kom fyrst til þessarar deildar 1. september; með öðrum orðum:

Meðgöngutími nefndarinnar í hv. nefnd var 6½ vika, en þessari deild ætlaður aftur á móti tími af alt of skornum skamti til að athuga þetta stórmál. Fleiri dæmi mætti nefna upp á þetta óþolandi, ósæmandi og óhæfilega seinlæti hv. Nd., vægari orðum get jeg ekki um það farið; en jeg læt þetta nægja að sinni.

Annað atriði vildi jeg leggja áherslu á, og það er það, að þingm. mættu ekki koma með frumvörp beint inn á þing. Heldur ætti sameinað þing t. d. að kjósa 5–7 manna nefnd, og öll frumvörp, sem kæmu inn á þingið, ætti sú nefnd að athuga áður en þau yrðu tekin fyrir af þingdeildunum. Eins og nú stendur, hafa þingmenn ótakmarkaðan rjett, til þess að koma með frumvörp inn á þingið, og þessi rjettur er mjög misbrúkaður, sjerstaklega í neðri deild. Jeg skal vekja athygli á því, að nú í ár hafa komið þar fram af hálfu þingmanna 59 frumvörp og 17 tillögur, og 35 frumvörpin af 59 eru um breytingar á gildandi lögum, sem flest eru frá því í fyrra og hitt eð fyrra. T. d. eru 6 frumvörp um breytingar á símalögunum frá 1912. Þetta sýnir, hvað þingmenn eru ákaflega áfjáðir og ólmir í að koma með frumvörp inn á þingið. Það er eins og þeir álíti að sæmd sín sje í veði, ef þeir geta ekki komið með svo eða: svo mörg frumvörp. Jeg álít, að það sje þetta, sem mest tefur framgang málanna. Flest málin eru sett í nefndir. Í engri nefnd í neðri deild eru færri en 5 menn, svo að sömu mennirnir eru í fjölda mörgum nefndum. Það rekst svo hvað á annað, svo að nefndirnar geta ekki komið saman, nema einstöku sinnum, og formenn nefndanna eru í vandræðum með að ná þeim saman. Það er eftirtektarvert, að svona mörg frumvörp skuli koma fram á þessu þingi, sem aðallega er kosið til þess að fjalla um stjórnarskrármálið. Það er eins og þingið hafi gleymt því, hvað var aðaltilgangur þess, En þetta er ekki eins dæmi. Á þinginu 1912 gleymdist aðalefnið alveg. Þá sveikst þingið algjörlega um að taka fyrir það málið, sem það var kosið til þess að fjalla um, og nú í ár stappar nærri því, að sömu svikin komi fyrir.