10.08.1914
Efri deild: 36. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í B-deild Alþingistíðinda. (1891)

31. mál, þingsköp Alþingis

Karl Finnbogason:

Mjer skilst, að þegar að þingsköpin eru á dagskrá þá megi tala um alt annað. Jeg vil því segja nokkur orð út af því, sem hv. þingm. Ísfirðinga (S. St.) var að tala um. Ræða hans var voldugur reiðilestur. En að því er jeg best fæ sjeð, fluttur á röngum tíma og skökkum stað. Á röngum tíma af því, að nú er komið að þingslitum. Á skökkum stað af því, að enginn var viðstaddur úr neðri deild. En hún fjekk allar skammirnar.

Jeg álít það rjett að hreyfa þessu máli og reyna að ráða bót á vinnubrögðum þingsins. En þá ætti að halda um það „privat“-fund meðal allra þingmanna, en ekki að hrópa það út um borg og bý, eins og háttv. þingmaður Ísfirðinga gjörir. Jeg vil lýsa yfir því, að jeg er óánægður yfir því, hve störf þingsins ganga seint, en jeg vil undirstrika það, sem 2. þingm. Gullbr.- og Kjósars. (K. D.) sagði, að góðar og gildar ástæður eru nú fyrir þessu.

Fyrsta ástæðan er sú, að konungurinn kallaði ráðherrann utan, og eftir honum beið bæði stjórnarskráin og fánamálið. Önnur ástæðan er sú, að nú geysar ófriður um Norðurálfuna, sem einnig hefir tafið þingið mjög. Og því má vel bæta við, að það tefur þingið mikið, er menn standa upp og halda langar ræður utanvið efnið, eins og hv. þm. Ísfirðinga (S. St.) hættir stundum við — og jafnvel fleirum.