10.08.1914
Efri deild: 36. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í B-deild Alþingistíðinda. (1893)

31. mál, þingsköp Alþingis

Karl Finnbogason:

Jeg þakka hv. þm. Ísf. (S. St.) fyrir föðurlegar áminningar. Jeg veit vel, að jeg er ungur sem þingmaður, og jeg veit líka hitt, að hv. þm. Ísf. (S. St.) er gamall þingmaður. Og það er auðheyrt og auðsjeð á öllu, að hann veit af því, að hann sje reyndur og ráðinn.

Um leið og hv. þm. vítti þetta þing, vítti hann líka hin fyrri. Nú ætti honum að vera ljóst — gömlum barnafræðara — , að ekki verður bætt þetta þing, sem er þegar liðið, með því að vita það. Hann hefði því átt að vara það í upphafi við vítum hinna fyrri þinga. Það var eina leiðin til að bæta þetta þing.

Hitt átti hv. þm. líka að vera ljóst, að ekki mundi hann bæta Nd. nú með því að baktala hana hjer.

Enn fremur ætti þessum margvitra og reynda hv. þm. að vera það ljóst, að slíkt baktal og baðstofuhjal, sem hann fór með, getur ekki til annars orðið en að vekja deilur, úlfúð og illindi með þjóð og þingi, ef nokkur gjörir nokkuð af því.