10.07.1914
Efri deild: 5. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í B-deild Alþingistíðinda. (1897)

17. mál, bann gegn útflutningi á lifandi refum

Karl Finnbogason :

Þetta frumvarp er stutt og ætti að ræðast sem stytst. Markmið þess er að hlynna að refarækt — refaeldi — og auka arð af henni. Sennilega er það gott frá því sjónarmiði. En frá mínu sjónarmiði er frumvarpið athugavert, og jeg býst við að svo sje einnig frá almennu sjónarmiði.

Refarækt er stunduð og verður að líkindum stunduð að eins eða einkum á eyjum og afviknum stöðum, þar sem búfje. manna stafar lítil eða engin hætta af refunum.

Nú er það öllum kunnugt, að refarnir fæðast og alast fyrstu daga æfinnar á afrjettum landsins og upp til fjalla. Þar stafar búfje manna hætta af þeim. En þaðan verða refaræktarmennirnir að fá þá — fyrst um sinn að minsta kosti.

Ef nokkrir eiga rjettilega skilið að hafa arð af refunum, þá eru það þeir, sem bíða. tjón af tilveru þeirra, og leggja á sig vökur og vosbúð til að handsama þá.

Verði þetta frumvarp að lögum, er loku skotið fyrir, að óháð samkepni útlendra og innlendra manna geti hækkað svo verð á yrðlingum, sem framast má verða. Atvinna þeirra fáu, sem eru svo vel í sveit settir, að þeim er auðgjört að stunda refarækt, er vernduð, og arður af henni aukinn á kostnað hinna mörgu, sem bíða. tjón af refunum og kosta til að veiða þá.

Þetta er órjettlátt. Því er jeg á móti frumvarpinu.

En auk þessa er þetta frumvarp, eins og svo margt annað, sem fyrir þingið er lagt, ekki komið fram fyr en eftir að þing er sett. Jeg hefi hvergi sjeð neitt nje heyrt um þetta mál fyr og veit ekki til, að þjóðinni hafi verið gefinn neinn kostur á að athuga það. Þó snertir það almenning, svo að skylt væri að lofa mönnum að athuga það eitthvað, áður en frumvarpið yrði að lögum, enda sje jeg ekki að hjer sje um neina nauðsyn að ræða.

Jeg legg því til, að frumvarpinu verði ekki vísað til 2. umr.