17.07.1914
Efri deild: 11. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í B-deild Alþingistíðinda. (1913)

62. mál, hvalveiðamenn

Flutningsm. (Sigurður Stefánsson) :

Þegar frumvarp það um hvalveiðamenn, sem nú er orðið að lögum, var hjer til umræðu í fyrra, var mikið rætt um það, hvort hvalveiðamennirnir mundu eigi koma fram með skaðabótakröfur, ef frumvarpið yrði að lögum, og hvernig þeim kröfum mundi reiða af.

Nefndin hjer í deild gjörði sjer mikið far um að rannsaka þetta. Fyrir milligöngu norska ræðismannsins í Reykjavík gjörði hún fyrirspurn til stjórnarinnar í Noregi um það, hvort hvalveiðamennirnir þar í landi hefðu höfðað skaðabótamál, þegar hvalveiðar voru þar lögbannaðar, og ef svo hefði verið, hvort þeir hefðu fengið sjer dæmdar skaðabætur. Svarið var ókomið í þinglok, og rjeði nefndin til að frumvarpið yrði samþykt, og varð það úr.

Rjett eftir þing kom svarið til stjórnarinnar hjer. Var þar skýrt frá því, að af 11 hvalveiðafjelögum í Noregi hefði að eins eitt höfðað skaðabótamál, en tapað því fyrir undirrjetti. Hin fjelögin hefðu fallið frá því að höfða skaðabótamál, en farið þó fram á, að sjer væri að nokkru bætt tjónið, sem af banninu leiddi; hefði svo Stórþingið norska samþykt að veita þeim 280400 kr. í þessu skyni, eða sem svaraði hjer um bil 2/3 af því tjóni, sem hvalveiðamennirnir töldu sig hafa orðið fyrir við bannlögin. Við umræðurnar í Stórþinginu kom það fram, að glöggir lögfræðingar ljetu það í ljós, að óvíst væri að undirrjettardómurinn stæði óhaggaður, væri málinu lengra haldið. Víst er það, að Stórþingið veitti þessar skaðabætur. Ef þessar upplýsingar hefðu verið komnar á meðan um málið var fjallað hjer í fyrra, þá getur vel verið að því hefði reitt öðruvísi af.

Nú hefir það borið við síðan frumvarpið var samþykt og er orðið að lögum, að hvalveiðamaðurinn M. C. Bull, sem rekið hefir hvalveiðar í Hellisfirði eystra, hefir sent skaðabótakröfu til landsstjórnarinnar. Hann hefir sent sundurliðaðan reikning yfir það, hvað byggingar á hvalveiðastöðinni kosti, og nemur það alls 86000 kr. Fer hann fram á, að sjer verði veittar 50000 kr. skaðabætur fyrir eignatjón það, er lögin frá 22. nóv. 1913 baki sjer, og svarar það hjer um bil til þess, sem hvalveiðamennirnir fengu í Noregi.

Nú er Alþingi í sjálfsvald sett, hvort það vill fara að dæmi Stórþingsins norska og veita skaðabæturnar, eða láta það ógjört; hygg jeg að það muni taka þann kostinn, fremur, ef um það tvent er að velja. En. það er til þriðji vegurinn. Jeg tel það eigi ósanngjarnt, að þeim hvalveiðamönnum, sem enn eru hjer í landi, væri veitt einhver ívilnun. Nú munu ekki vera nema tvö hvalveiðafjelög hjer í landi, annað í Jökulfjörðum vestra og hitt fjelag Bulls. Hefi jeg heyrt að Bull stundi ekki hvalveiðar hjer í ár, en sje að reyna að selja útgjörð sína. Hinn hvalveiðamaðurinn hefir líka dregið saman seglin; áður hafði hann 7–8 báta, en í fyrra munu þeir ekki hafa verið nema 3–4. Það er því alt útlit fyrir, að hvalveiðar, stundaðar hjeðan frá landi, sjeu í þann veginn að hætta Hvölunum hefir fækkað svo mjög, að útvegurinn hefir ekki borgað sig að undanförnu, og ekki útlit fyrir að breyting til bóta verði á því í bráð.

Hvernig sem á málið er litið, sýnist. mjer ráðlegast, að þingið taki frumvarpinu vel og veiti undanþágu þá; sem farið er fram á. Mikil sanngirni mælir með að. undanþága sú sje veitt, sem frumvarpið nefnir, en hins vegar er í því fyrirgirt að þeir, sem hennar njóta, geti aukið útveg sinn, frá því sem nú er, eða ný fjelög verði sett hjer á stofn. Það má vel vera að rjett sje að skipa nefnd í málið, þótt jeg gjöri það ekki að svo stöddu að minni tillögu.