17.07.1914
Efri deild: 11. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í B-deild Alþingistíðinda. (1914)

62. mál, hvalveiðamenn

Karl Einarsson :

Jeg varð hálfhissa, þegar jeg sá frumvarp þetta koma fram, og sjerstaklega. undraðist jeg að sjá háttv. þm. Ísfjk. (S. St.) gjörast flutningsmann þess; því að mjer var sagt, að hann hefði í fyrra verið einn af aðalstuðningsmönnum laga þeirra, er hann vill nú fá breytt. Að mínu áliti hefir ekkert það komið fram síðan í fyrra, er sje þess eðlis að ástæða sje til að breyta lögunum frá nóv. 1913 um hvalveiðamenn, eða rjettara sagt ónýta þau eins og hjer er stefnt að.

Jeg veit ekki betur en lögin í fyrra væru sett til að friða hvali hjer við land. Ef þetta frumvarp fær framgang, þá er loku skotið fyrir það, að hvölum fjölgi hjer í höfum umhverfis landið, svo að í stað þess að þeim fjölgi má jafnvel búast við að þeir gangi enn meir til þurðar, ef þessum tveim fjelögum, sem mjer er sagt að frv. þetta sje framborið fyrir, verður leyft að halda áfram að drepa þá.

Af hverju er svo frumvarp þetta komið fram? Af ræðu háttv. þm. Ísfjk. (S. St.) var helst að ráða, að það væri borið fram vegna þess, að hvalveiðamaðurinn M. C. Bull hefði komið fram með skaðabótakröfu til landssjóðs.

Jeg skil ekki í hvernig manni þessum getur dottið í hug, að koma með skaðakröfu fyrir tjón, sem hann hefir eigi enn orðið fyrir, því að eins og kunnugt er, ganga lögin um hvalveiðamennina ekki í gildi fyr en 1. okt. 1915.

Krafan er því fjarstæða ein, og henni ekki gaumur gefandi. Auk þessa er maðurinn hættur hvalveiðum hjer, eftir því sem sýslumaðurinn í Suður-Múlasýslu hefir skýrt mjer frá, og banna þó engin lög honum að stunda þær hjer í sumar og að sumri. Hann hefir því ekki hætt þeim fyrir það, að lögin leggi hindranir í veg hans, heldur af því að honum hefir þótt þær borga sig ekki. Nú er svo komið, að Norðmönnum þykja hvalveiðar borga sig miklu betur í suðurhöfum en norður frá, og því hafa þeir flutt sig á veiðistöðvar þar, en hvarflað hjeðan frá landi. Alt þetta styður þú skoðun mína, sem jeg lýsi yfir að jeg hefi á þessu máli, að hjer geti ekki komið til mála, að þessi fjelög, sem hjer eiga enn þá einhver tæki til hvalveiða, eða stunda þær, komi í alvöru fram með neina skaðabótakröfu á hendur landssjóði. Það, sem sagt er viðvíkjandi kröfu M. C. Bulls, sannar fyllilega, að hann hefir engan rjett til skaðabóta. Þegar litið er á málið frá almennu sjónarmiði, kemur brátt í ljós, að bæði hjer og annarstaðar eru iðulega sett lög, sem segja má um, að þau hnekki atvinnu ýmsra einstakra manna og valdi þeim tjóni, beinlínis eða óbeinlínis. Jeg skal að eins minna á aðflutningsbannlögin á áfengi hjer hjá oss. Veit jeg ekki betur en bæði þingið og lögfræðingar yfirleitt hafi þá skoðun, að eigi muni þeir, sem vínsölu stunda, geta átt rjett til skaðabóta, þótt þeim sje bönnuð vínsala eftir næsta nýár. Þess hefir verið getið, að Norðmenn hafi farið fram á skaðabætur, er þeim voru bannaðar hvalveiðar heima hjá sjer. Þó var það að eins eitt fjelag af ellefu, eftir því sem háttv. flutningsmaður (S. St.) sagði, er höfðaði skaðabótamál, og það tapaði þessu máli fyrir undirrjetti. Þetta mun vera rjett hermt hjá háttv. flutningsmanni (S. St.), en hann gat ekki hins, að fjelögin höfðu gjört fyrirspurn um málið til lögfræðisdeildarinnar við háskólann í Kristjaníu, og veit jeg ekki betur en hún gæfi það einróma svar (responsum), að þau hefðu engan lagalegan rjett til skaðabóta. Þá var það, að eitt fjelagið höfðaði eigi að síður mál, og fór um það eins og áður er getið, en hin öll sneru sjer til Stórþingsins og fóru þess á leit, að sjer yrði veitt úr ríkissjóði einhver upphæð til að bæta sjer að einhverju tjón það, er þau töldu sig hafa orðið fyrir við bannlögin. Komst Stórþingið að þeirri niðurstöðu, að sanngjarnt væri að veita þeim nokkra úrlausn. Þó efast jeg mjög um, að skaðabæturnar hafi numið 2/3 af tjóninu; til þess sýnast 280,000 krónur vera oflág upphæð.

Hjer horfir málið töluvert öðruvísi við en í Noregi; það voru innbornir þegnar ríkisins og sjálfsagt stórir og öflugir gjaldendur, sem skaðabæturnar fengu, en hjer er um menn að ræða, sem að eins hafa annan fótinn í landinu og flutt hafa meginarð atvinnu sinnar út úr landinu til annars lands. Hjer mælir því ekkert með þessari kröfu.

Það er alment álit í Noregi, að hvalveiðamennirnir hafi eigi átt nokkurn lagarjett til skaðabóta. Jeg skal láta það ósagt, hvort einhverjir glöggir lögfræðingar kunni að hafa haldið hinu gagnstæða fram í Stórþinginu. En ómögulegt er það ekki, að þeir hafi þá verið meðeigendur í einhverju fjelaginu, umboðsmenn eða ráðunautar, og gat það haft nokkur áhrif á skoðun þeirra á málinu, og varla mun .Stórþingið hafa veitt skaðabótafjeð vegna raka þeirra, heldur af hinu, að því hafi þótt það sanngjarnt, eftir því sem á stóð.

Þegar nú svo er komið, að hvalveiðarnar hafa ekki borgað sig hjer að undanförnu, þá virðist öll sanngirniskrafa til skaðabóta falla niður, hvað sem öðru líður.

Að því er snertir M. C. Bull hvalveiðamann, þá má geta þess, auk þess sem áður er sagt, að hann hefir lýst því brjeflega yfir við hlutaðeigandi sýslumann, að hann sje nú hættur veiðum hjer við land. Krafa hans er því algjörlega út í loftið. Hvort það kann að vera heppilegt að semja við þann eina hvalveiðamann, sem nú er eftir, tel jeg mikið vafamál. En af þeim ástæðum, er jeg áður hefi tekið fram, er jeg algjörlega mótfallinn því, að nefnd verði skipuð í frv., en leyfi mjer að leggja til að það verði felt nú þegar.