17.07.1914
Efri deild: 11. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í B-deild Alþingistíðinda. (1916)

62. mál, hvalveiðamenn

Karl Einarsson :

Jeg skal ekki vera langorður að þessu sinni. Jeg vil að eins geta þess, að mjer var það fyllilega ljóst, að hjer er bæði um atvinnu og eignatjón að ræða. En jeg get ekki sjeð að eignatjónið sje annað en sá kostnaður, sem leiðir af því að flytja hús og vjelar hjeðan af landi burt. Hæstvirtur ráðherra sagði, að í Noregi hefði öllum komið saman um að hvalveiðamenn ættu heimtingu á skaðabótum fyrir eignatjón, en þetta getur ekki verið rjett, því að samkvæmt þeim upplýsingum sem jeg hefi fengið, var alt juridiska fakultetið sammála um, að þeir ættu engan rjett til skaðabóta, hvorki fyrir atvinnu nje eignatjón. Að eins einn fór í mál við stjórnina og tapaði málinu. Það er heldur ekki rjett, að eignir hvalveiðamanna hjer á landi verði verðlausar, heldur verða hvalveiðamenn að eins að flytja þær af landi burt. Að lokum vil jeg taka það fram, að verði þetta frumvarp að lögum, þá er þar með komið á einokun með hvalveiðar, þar sem 1–2 mönnum er leyfð slík veiði hjer við land, en öllum öðrum er bægt frá, og mjer finst að það sje jafnvel betra að greiða hvalveiðurum nokkrar skaðabætur heldur en að veita einum manni einkaleyfi til þess að reka þessa atvinnu. Hins vegar skil jeg lögin svo, að hvalveiðamenn geti ekki fært rjett sinn yfir á aðra, geti ekki selt stöðvar sínar svo að veiðirjetturinn fylgi. Sje þetta rjett skilið, þá fellur um sjálfa sig sú röksemdaleiðsla ráðherra, að með þessum lögum sje komið í veg fyrir að landssjóður verði skaðabótaskyldur. Því að ef Bull á nú heimtingu á skaðabótum fyrir það tjón, er hann bíður við að geta ekki selt stöð sína, þá mundu þessir menn einnig á sínum tíma eiga rjett á skaðabótum fyrir það, að þeim er meinað að selja sínar stöðvar. Lögin næðu því ekki tilgangi sínum að þessu leyti.