17.07.1914
Efri deild: 11. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í B-deild Alþingistíðinda. (1917)

62. mál, hvalveiðamenn

Flutningsm. (Sigurður Stefánsson):

Jeg skal geta þess, í viðbót við það, sem hæstvirtur ráðherra sagði, að þing Norðmanna tók það fram, að skaðabætur þær, er ríkissjóður Norðmanna greiddi, væru að eins bætur fyrir eignatjón, en ekki fyrir atvinnutjón; allir hvalveiðabátar og skip því frá taldir, og er þá skiljanlegt, hvers vegna upphæðin var ekki hærri en 280 þús. kr. Að þetta frumvarp ónýti þann tilgang laganna, að friða hvalina get jeg ekki sjeð, þar sem mönnum er það fullkunnugt, að nú eru að eins tveir menn eftir, er stunda hvalveiðar hjer við land, og annar þeirra um það leyti að hætta. Það er því ekki ástæða til að ætla, að eins mikið verði drepið af hvölum, eins og ef veiðin væri öllum frjáls. Háttvirtur þm. Vestm. (K. E.) sagði, að það hefði verið öðru máli að gegna, þótt Norðmenn hefðu . greitt hvalveiðamönnum skaðabætur, þar sem verið hefði að ræða um góða borgara í landinu. En jeg vil segja að þeir menn, sem hjer er um að ræða, hafa einmitt verið með bestu borgurum þessa lands. Þeir hafa greitt mikil gjöld í landssjóð og þá ekki síður til sveitafjelaganna, þar sem þeir hafa verið búsettir, og má því vel líta á málið frá því sjónarmiði einnig hjer á Íslandi. Sami háttvirtur þingmaður sagði, að hjer væri verið að koma á einokun. Það kveður nú orðið ávalt við þann tón, að verið sje að koma á einokun, ef um einhverjar undanþágur frá lögum er að ræða. En jeg get ekki sjeð að þetta sje rjett. Aðaltilgangur laganna er sá, að sporna við frekari eyðingu hvalanna, og þeim tilgangi munu lögin ná þrátt fyrir þessa undantekningu. Því að jeg get ekki sjeð, að mikil hætta stafi af þeim eina hvalveiðamanni, sem nú er eftir, einkum þar sem líkur eru til að hann muni hætta innan skamms. Verður þessi undantekning þá þýðingarlaus. En á hinn bóginn losast landssjóðurinn við málsókn, er getur haft ærinn kostnað í för með sjer og óvíst um úrslit hennar.