29.07.1914
Efri deild: 21. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í B-deild Alþingistíðinda. (1922)

62. mál, hvalveiðamenn

Framsögum. minni hlutans (Karl Finnbogason) :

Jeg hafði búist við, að háttv. framsögumaður meiri hluta nefndarinnar mundi taka fyrstur til máls, en úr því hann gjörir það ekki, vil jeg nú þegar gjöra grein fyrir skoðun minni á málinu. Jeg hefi ekki getað orðið sammála háttv. meðnefndarmönnum mínum og tel mjer það því skylt.

Jeg gjöri ráð fyrir að tilgangur laganna frá þinginu í fyrra „um hvalveiðamenn“ hafi verið sá, að friða hvalina hjer við land og sporna við eyðingu þeirra. Skilyrði þess, að þau nái tilgangi, er auðvitað það, að þau gangi í gildi og þeim sé beitt.

En verði þetta frv. að lögum, er loku skotið fyrir, að hin lögin nái tilgangi, því samkvæmt því á ekki að beita þeim.

Svo sem kunnugt er, eiga lögin um hvalveiðamenn að gilda frá 1. okt. 1915 til 1. jan. 1925 — eða full 9 ár. Ef nú sú undanþága frá lögunum verður samþykt, sem farið er fram á í frv. því, sem hjer liggur fyrir, þá sje jeg ekki betur en að loku sje skotið fyrir það, að þau geti komið að haldi. Þeir menn, sem nú reka hvalveiðar hjer, geta vel lifað hin næstu 9–10 ár, og er miklu síður ástæða til þess að halda, að þeir á þeim tíma muni hætta við atvinnu sína, ef allir keppinautar verða útilokaðir. Og það má sannarlega undarlegt heita, ef Alþingi nú ætlar að fara að lögvernda hvaladráp, eftir að hafa samþykt hvalafriðunarlögin í fyrra.

Menn hafa fært það fram til varnar frv. þessu, að það ætti að koma í veg fyrir væntanlegar skaðabótakröfur af hendi hvalveiðamanna og firra landssjóð skaðabótagreiðslu. En það hefir verið tekið fram hjer í deildinni, og jeg hygg, að það sje sannanlegt, að hvalveiðamennirnir hafi engan lagalegan rjett til skaðabóta. En ef til vill mælir þó sanngirnin með, að þeim verði greiddar skaðabætur. Jeg hygg að svo sje ekki. Því hefir verið haldið fram, að hvalveiðar hafi borgað sig ver og ver hin síðari ár og því talin líkindi til, að hvalveiðamennirnir mundu hætta án allrar lagaþvingunar. Ef þetta er satt, hlýtur hver maður að sjá, að það nær engri átt að greiða mönnum bætur fyrir tjón af að hætta þeirri atvinnu, sem þeir sjálfir játa, að sje einskis virði.

Mjer virðist því hvalveiðamennirnir hvorki geta átt lagalegan rjett nje sanngirniskröfu til skaðabóta.

En þótt þeir ættu rjett til skaðabóta, þá verður ekki komið í veg fyrir kröfur þeirra, nje landssjóður leystur undan skyldunni með því að veita undanþágu frá lögunum. Því það er auðsætt, að ef mennirnir hafa rjett til skaðabóta 1915, þá hafa þeir sama rjett 1925, svo framarlega sem þeir halda áfram. Og undanþágan veitir þeim, með þeim einkarjetti, sem þeir eignast, ef lögin ásamt henni verða í gildi, svo góða tryggingu, sem suðið er, fyrir því, að þeir geti haldið áfram veiðunum.

Mjer virðist með þeirri löggjöf, sem hjer er um að ræða, verið fundið örugt ráð til að tryggja hvaladráp — eyða hvölum hjer við land. En það hefir líklega ekki verið meining þingsins að gjöra það, þegar það afgreiddi lögin í fyrra.

Það er auðsjeð, að hv. frumvarpsmenn og hv. meðnefndarmenn mínir hafa það á samviskunni, að undanþága muni illa duga. Þess vegna slá þeir varnagla, vilja þrengja kosti hvalveiðamanna svo, að þeir njóti ekki þess rjettar, er undanþágan veitir í orði kveðnu. Í frv. er hvalveiðamönnum bannað að fjölga skipum sínum eftir að lögin ganga í gildi. En hv. meðnefndarmönnum mínum þykir þetta ekki nóg. Þeir vilja líka banna þeim að flytja inn nýjar vjelar og hluta úr vjelum til hagnýtingar hvalafurða. Þetta þykir mjer lítt drengilegar aðfarir, að leyfa atvinnuna, en gjöra samt sem áður ókleift að reka hana. Jeg tel það sóma þingsins ósamboðið, að taka það aftur með annari hendinni, sem það gefur með hinni. Jeg fæ ekki sjeð, að þetta bann gegn fjölgun skipa komi að nokkru gagni, því að hvalveiðamennirnir geta fjölgað skipum áður en lögin ganga í gildi og haft þau hjer að nafni til veiða, þegar lögin ganga í gildi. Svo geta þeir sent þau hvert í heim, er þeim sýnist, því þeir þurfa ekki að nota þau til veiða hjer, fyr en þeim þykir ástæða til. Á þessum skipum geta þeir flutt áhöld, hvenær sem þá vanhagar um þau, án þess mögulegt sje að koma í veg fyrir það.

Niðurstaða mín er því sú, að lög þessi hljóti að tryggja það, að hvalveiðamenn haldi áfram að reka hjer atvinnu sína, ef mögulegt er að tryggja það.

Lögin um hvalveiðamennina frá þinginu í fyrra ná þá ekki tilgangi sínum. Og skaðabótakröfurnar vofa yfir eftir sem áður, svo undanþágan nær ekki heldur tilgangi sínum.

Ef um tvent væri að velja, annaðhvort að samþ. undanþáguna eða nema úr gildi lögin um hvalveiðamenn, til að komast hjá skaðabótum, þá vildi jeg miklu heldur nema lögin úr gildi. Það væri hreinlegt, en þó til minkunar þinginu. En meti menn lögin svo mikils, að þeir vilji halda þeim, þá er drengilegra þjóð og þingi, að slá engu af, en greiða sanngjarnar skaðabætur fyrir að hafa rænt menn: rjetti og spilt eignum þeirra.

Loks vil jeg benda á það, að engin nauðsyn er að ráða þessu máli til lykta. nú, fyrst lögin ganga ekki í gildi fyr en að hausti. Það er því tillaga mín, að frv. sje felt og málið látið bíða næsta þings. Meðan getur stjórnin búið það betur undir, og þingið sjeð hverju fram vindur með hvalveiðamennina.