29.07.1914
Efri deild: 21. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í B-deild Alþingistíðinda. (1923)

62. mál, hvalveiðamenn

Framsögum. meiri hl. (Sig. Stefánsson):

Jeg skal ekki fara mörgum orðum um þetta mál. Þetta er ekki neitt stórmál, þótt hv. þm. Seyðf. (K. F.) hafi reynt að gjöra úlfalda úr þessari litlu mýflugu. (Karl Finnbogason: Koma flugurnar enn!) Já, háttv. þm. Seyðf. (K. F.) er sá flugnahöfðingi. Jeg skýrði frá því við 1. umr., hver væri ástæðan til þessa frv., að tilgangurinn væri að losalandssjóð við alla skaðabótagreiðslu til þeirra hvalveiðamanna, er enn stunda hjer veiðar. Það er misskilningur, að þeir geti ekki gjört skaðabótakröfur. Það er ekki hægt að girða fyrir, að þeir gjöri þær. Jeg tók það fram, að jeg byggist ekki við, að þingið hjer vildi fara að sem Stórþingið norska og veita fje til að fullnægja skaðabótakröfum þeirra. Ef þessir menn, sem gjöra skaðabótakröfur til landssjóðs, fara í mál, þá hlýtur það að verða landssjóði til kostnaðar, hvernig sem málið fer. En jeg vildi girða fyrir að landssjóður hefði nokkurn kostnað af þessu.

Hv. þm. Seyðf (K. F.) sagði í öðru orðinu, að óvíst væri, að þessir hvalveiðamenn hjeldu áfram atvinnu sinni hjer, því að þeir græddu lítið á henni. En getum við losast við skaðabætur fyrir dómsstóli fyrir því? Þeir fara ekki að segja það þar, að þeir hafi tapað, og það verður erfitt að sanna það.

Jeg fæ ekki sjeð, að skaði geti orðið að frv., þótt það verði samþykt, því að þessir hvalveiðamenn eru á förum. Það er ef til vill engin þörf á frv., en það er framkomið í því skyni, að svifta þessa menn allri von um að vinna skaðabótamál við landssjóð. Hjer er ekki að ræða um að veita þeim skaðabætur fyrir atvinnutjón, en á það lagði hv. þm. Seyðf. (K. F.) áherslu. Stórþingið norska hefir ekki viljað veita bætur fyrir atvinnutjón, heldur að eins fyrir tjón á eignum, sem þeir hafa beðið við að þeir hafa orðið að rífa hús og þess háttar. Atvinnu sína geta þeir rekið annarsstaðar á hnettinum.

Hv. þm. Seyðf. sagði, að hvalveiðamenn hefðu sama rjett 1915 og þeir hafa nú, og það getur vel verið rjett. Það má vel vera, að þessi lög verði þá endurnýjuð.

Hv. sami þm. (K. F.) hjelt því og fram, að þeir gætu komið hingað með marga báta, áður en lögin gengju í gildi, og haldið áfram atvinnurekstri sínum. En slíkt eru hártoganir eða grýlur einar. Það væri óðs manns æði, ef þeir færu nú að kaupa báta upp á enga von um ágóða af hvalveiðunum. Hitt má aftur vel vera, að það verði erfitt að „kontrollera“, að þeir flytji ekki inn nýjar vjelar eða hluta úr vjelum. En það er svo um margt í slíkri löggjöf, að ekki er gott að sjá um að lögunum verði hlýtt.

Aðaltilgangur frv. er sá, að losa landssjóðinn við að greiða nokkrar skaðabætur til hvalveiðamannanna út af bannlögunum í fyrra, og slíkt getur ekki talist óeðlilegt.