29.07.1914
Efri deild: 21. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í B-deild Alþingistíðinda. (1925)

62. mál, hvalveiðamenn

Guðm. Björnsson:

Jeg er hv.flutnm. (S. St.) öldungis samdóma um, að ekki sje gefandi fje úr landssjóði til að halda við þessu hvalveiðabanni, er þingið samþykti í fyrra. Að því leyti er það rjettmætt, að hann hefir borið þetta mál upp. En ef tryggja á landssjóð gegn kostnaði af þessum hvalveiðabannlögum, kýs jeg helst, að það sje gjört á þann hátt að nema lögin úr gildi, Jeg get með engu móti felt mig við þetta frv. Árangur þess verður sá, að 1–2 mönnum er veitt einkaleyfi til að reka hvalveiðar 9–10 ár. Með þeim hætti verður lítt fullnægt tilgangi laganna, ef hann er nokkur. Jeg veit með vissu, að fyrverandi stjórn óttaðist skaðabótamál af hendi hvalveiðamanna, og hugði að landssjóður mundi bera lægra hlut í því máli. Það hafa verið bornar brigður á, að ástæða væri til slíks ótta. Jeg kysi, að núverandi stjórn væri spurð um þetta. Ef hún er óttalaus um þetta efni, sje jeg ekki ástæðu til neinna ráðstafana af þingsins hálfu.

Jeg get ekki með nokkru móti sætt mig við að tryggja landssjóð gegn tjóni, með því að veita 1–2 mönnum einkaleyfi. Hvalaveiðar geta orðið 1–2 mönnum arðsöm atvinnugrein, þótt hún sje það ekki, ef margir reka hana.

Jeg er samdóma hv. flm. (S. St.) um það, að tryggja beri landssjóð gegn útlátum. En ekki á þann veg, sem hjer er ætlast til. Jeg vil fela stjórninni málið til íhugunar. Ef þörf gjörist, má afgreiða málið í skjótu bragði á næsta þingi.

Jeg mun því greiða atkv. móti frv.