21.07.1914
Neðri deild: 17. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í B-deild Alþingistíðinda. (194)

2. mál, sauðfjárbaðanir

Hjörtur Snorrason :

Þar eð eg var einn í nefnd þeirri, sem sett var til að athuga frumvarp þetta, þá þykir mér rétt í fám orðum að lýsa afstöðu minni til frumvarpsins, þó hún komi reyndar fram í nefndaráliti meiri hlutans.

Eg álít, að með breytingum þeim, sem í frumvarpinu felast, Sé lögin um sauðfjárbaðanir gerð kraftlaus og einskis nýt. Ákvæði þau í 5. gr. laganna um pöntun og kaup á baðlyfjum fyrir fram, aðaldriffjöðrin, sem knýr bændur til að baða sauðfé sitt reglulega og á þeim tíma, sem ákveðinn er í lögunum. Sektarákvæðin í 8. gr. laganna þýðingarlaus af þeirri ástæðu, að þeim myndi sjaldan beitt, reynslan löngu búin að sanna það á svo mörgum öðrum sviðum. Eftirlit það með böðunum, sem hreppsnefndum er falið í 6. gr. laganna, einskisvert, þar sem þær hafa ekkert framkvæmdarvald. Þetta, að bændur verða að byrgja sig upp með baðlyf fyrir fram vissasta skilyrðið fyrir framkvæmdunum hvað baðanirnar snertir, því að úr því baðlyfin eru keypt, er ekki hætta á að þau verði ekki notuð.

Það atriði, að bændur verða að leggja fram andvirði baðlyfjanna fyrir fram er ekki ægilegt, þar er að eins um örfáar krónur að ræða og sýnist ekki miklu skifta, hvort greitt er í júní eða september. — Gera má ráð fyrir, að oftast yrði það hreppssjóðirnir, sem leggja verða fram andvirði baðlyfjanna í svipinn, en tilfinnanlegt er það alls ekki. Lögtaksréttarákvæðið er trygging fyrir því, að sjóðunum verði andvirðið endurgreitt. Nú svo mikil óregla á sauðfjárböðunum í sumum héruðum landsins og einstökum sveitum, og verður svo áfram, ef lögunum verður breytt eins og frumvarp þetta fer fram á, að vandræði geta af hlotist; þarf ekki nema einn bónda í hreppi eða jafnvel á stóru svæði til að gera tjón með því að trassa að þrífa sauðfé sitt, ala í því lús og máske kláða og sýkja með því móti fé annara. Við þessu ætti lögin að sporna eins og þau eru nú, en gera það alls ekki, ef á þeim verða gerðar þær breytingar, sem frumvarpið fer fram á.

Þá er að líta á ákvæði laganna um innkaup baðlyfjanna, sem falla í burtu, ef frumvarpið verður samþykt. Má að líkindum gera ráð fyrir því, að fá mætti lyfin miklum mun ódýrari, ef innkaupin væri gerð í einu fyrir alt landið, og það jafnvel þó tekið væri með í reikninginn, að í handaskolum nokkrum myndi fara fyrir landsstjórninni að fara með slíka verzlun, en ef hver fjáreigandi kaupir þau í Smákaupum, eins og tíðkast hefir. Hér er út frá vissu að ganga við innkaupin. Hver hreppur sendir sína pöntun og tiltekur um leið á hverja höfn skuli senda. Stjórnarráðið hefir því svart á hvítu: 1. Hve mikið af baðlyfjum þarf að panta. 2. Hvert eigi að senda og hve mikið á hverja höfn á landinu. Hér er því ekki hætta á að lenti í líku ólagi við útvegun baðlyfjanna, sem við útrýming fjárkláðans 1906 og sending tóbaksins út um landið. Þá hafði stjórnarráðið ekkert áreiðanlegt við að miða við innkaup baðlyfsins, hvað mikið þyrfti í heildinni og hve mikið í hvert hérað, annað en framtals skýrslurnar, jafn ónákvæmar sem þær reyndust.

Eg leyfi mér að vona að meiri hluti háttv. deildar sé mér samdóma um það, að breytingar þær á umræddum lögum, sem frumvarp þetta fer fram á, miði að því að gera þau að ónýtum pappírslögum og felli frumvarpið.