06.08.1914
Efri deild: 33. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í B-deild Alþingistíðinda. (1943)

90. mál, lán til raflýsingar fyrir Ísafjarðarkaupstað

Magnús Pjetursson:

Jeg ætlaði mjer ekki að standa upp, en það voru orð hv. 3. kgk. (Stgr. J.), sem ráku mig á fætur. Mjer þykir furðu gegna, að hv. þm. skuli koma með þá staðhæfingu, að einungis nokkrir menn úr sjálfstæðisflokknum hafi orðið til þess að fella fjáraukalögin. Jeg ætla ekki að fara að flíka hjer því, sem á flokksfundum gjörist, en ekki skil jeg í að nokkrum þm. detti í hug að trúa því, að háttv. 3. kgk. (Stgr. J.) viti betur hvað fram fer innan sjálfstæðisflokksins heldur en við, sem teljumst til þess flokks. Jeg skal geta þess út af því, sem háttv. sami þingm. sagði, að með þessu væri ónýtt verk fjáraukalaganefndarinnar, að það er ekki rjett, þar sem sömu fjárveitingar eru bornar fram í heimildarlögum eins og farið var fram á í fjáraukalögunum, þá er einmitt með því notað verk fjárlaganefndar. Bjargráðalögin eru líka heimildarlög, sem hafa útgjöld í för með sjer. Hvernig stóð á því, að þessir menn, sem álíta heimildarlög lögleysu og stjórnarskrárbrot, risu þá ekki upp og mótmæltu þeim lögum? Það sýnir samkvæmnina og sannfæringuna fyrir þeirra málsstað.