07.08.1914
Efri deild: 34. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í B-deild Alþingistíðinda. (1952)

90. mál, lán til raflýsingar fyrir Ísafjarðarkaupstað

Karl Einarsson:

Jeg er máli þessu í sjálfu sjer hlyntur, en get þó ekki greitt atkvæði mitt með frv., eins og nú horfir við, því að jeg sje ekki, að hægt sje að verða við þeim óskum, sem sjálfsagt munu koma fram frá öðrum, ef þetta frv. á að ganga fram. Fjárhagur landsins er ekki svo vaxinn nú sem stendur, að unt sje að veita sveitafjelögum lán úr landssjóði. Slíkt fyrirtæki sem þetta ætti og að geta borið sig sjálft, svo að það ætti ekki að þurfa að stranda á því, þótt ekki fengist lán til þess úr landssjóði. Ef jeg sje, að þetta frv. muni ganga fram, get jeg ekki annað en komið fram með 65000 kr. lánbeiðni fyrir Vestmannaeyinga til raflýsingingar hjá þeim. Þeir mundu heldur kjósa að fá lán með 4½% ársvöxtum en að þurfa að borga vexti þá, sem bankarnir taka, og svo er landssjóður vægur lánardrottinn, þegar erfitt er með afborganir.

Hjer liggja fyrir framan mig þrjú heimildarlagafrv. frá Nd. Eitt er um að flytja heim listaverk Einars Jónssonar, annað um að reisa vita á Grímsey, og hið þriðja um fjárveiting til Vífilsstaðahælisins. Þessi frv. snerta öll alt landið, og því öðru máli að gegna með þau en þetta frv.