11.07.1914
Efri deild: 6. fundur, 25. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í B-deild Alþingistíðinda. (1956)

24. mál, bann gegn botnvörpuveiðum

Steingr. Jónsson:

Það er mjög mikilsvert atriði, ef hægt er með nýjum lögum að stuðla að því, að botnvörpuveiðar í landhelgi minki. En jeg vil benda háttv. deild á, að málið getur verið athugavert. Árið 1894 herti Alþingi mjög sektarákvæði þau, er giltu um þetta efni. Hámarkið var fært upp í 10 þús. kr. og því var bætt við, að afli og veiðarfæri skyldi gjört upptækt. Það ákvæði hafði eigi staðið í lögunum frá 1889. Útlendingar, einkum Englendingar, báru sig mjög illa yfir þessum lögum, og þótti með ákvæðum þeirra gengið alt of nærri rjetti sínum. Einkum þótti þeim það ákvæði hart, að skip væru sektuð, ef þau fyndust í landhelgi, þótt ekki væru þau að veiðum. Árið 1897 var lögunum aftur breytt í þá mynd, sem nú eru þau í. Var þá fjölgað þeim tilfellum, er skip megi sigla fyrir innan landhelgislínuna.

Það er satt, að sektirnar eru ekki háar. En það er ekki aðalatriðið, heldur hitt, að afli og veiðarfæri er hvorttveggja gjört upptækt. En ef menn breyta lögum þessum í þá átt, sem hjer er farið fram á, þá óttast jeg, að útlendingar þykist sæta of harðri meðferð og ef til vill heimti að ákvörðunum um að afli og veiðarfæri skuli gjörð upptæk, verði breytt. Mjer er minnisstætt, hve stjórninni þótti óþægilegt, er Englendingar kvörtuðu yfir, að ákvæði laganna 1894 væru of hörð og heimtuðu að ídæmdar sektir væru eftirgefnar.

Jeg vildi að eins benda væntanlegri nefnd á, að frv. getur haft mjög óþægilegar afleiðingar í för með sjer, ef það verður að lögum.